Baráttan um Hvíta húsið er svo jöfn að líklegt er að óráðnir kjósendur í nokkrum lykilríkjum ráði úrslitum í forsetakosningunum 6. nóvember og á meðal þeirra eru margar konur. Frambjóðendurnir í forsetakosningunum biðluðu því til þessara hópa í þriðju og síðustu sjónvarpskappræðum þeirra í fyrrinótt. Mitt Romney, forsetaefni repúblikana, lagði mesta áherslu á að vera „forsetalegur“, sannfæra þá kjósendur, sem eru volgir fyrir honum, að þeir tækju ekki neina áhættu í utanríkis- og öryggismálum með því að kjósa hann. Líklegt er að honum hafi tekist það þótt fyrstu kannanir bendi til þess að Barack Obama hafi þótt standa sig betur í kappræðunum.
Romney gagnrýndi frammistöðu Obama í utanríkismálum almennt en tónninn í gagnrýni hans var mildari en á síðustu mánuðum, einkum í forkosningum repúblikana þegar hann reyndi að vinna íhaldsmenn á sitt band. Romney forðaðist nú deilur við forsetann um einstök mál. Í upphafi kappræðnanna sleppti hann t.a.m. tækifæri til að fylgja eftir gagnrýni sinni á stjórn Obama vegna árásarinnar í borginni Benghazi í Líbíu 11. september þegar fjórir Bandaríkjamenn biðu bana, þ.ám. sendiherra.
Ekki kom fram mikill munur á afstöðu frambjóðendanna í mikilvægustu utanríkismálunum. Romney kvaðst m.a. styðja þá ákvörðun Obama að kalla bandaríska herliðið í Afganistan heim árið 2014 og sagðist styðja árásir mannlausra flugvéla sem hafa kostað marga óbreytta borgara í Pakistan lífið.
Romney sagði nokkrum sinnum í kappræðunum að hann væri andvígur stríði og hygðist ekki reyna að leysa vandamálin með því að beita hervaldi, nema sem neyðarúrræði. Hann notaði orðið „friður“ tólf sinnum, m.a. tvisvar í lokaorðum sínum. Obama forseti, handhafi friðarverðlauna Nóbels, notaði þetta orð aldrei í kappræðunum, en hamraði aftur á móti á orðinu „öryggi“. „Forgangsverkefni mitt sem æðsti yfirmaður hersins er að tryggja öryggi bandarísku þjóðarinnar. Og það höfum við gert síðustu fjögur árin,“ sagði hann.
Romney hrósaði Obama fyrir að skipa hermönnum að fella Osama bin Laden í Pakistan. „En við drepum okkur ekki út úr þessu klandri,“ bætti hann þó við.
Obama ýjaði að því að Romney væri herskárri en hann léti í veðri vaka og reyndi að tengja hann við stefnu George W. Bush, fyrrverandi forseta, í utanríkismálum, einkum stríðið í Írak, sem er mjög óvinsælt meðal margra óflokksbundinna kjósenda, einkum kvenna. Forsetinn minnti m.a. á að Romney hafði hrósað Bush og Dick Cheney, fyrrverandi varaforseta.
Segja má því að Romney hafi slegið vopnin úr höndum Obama með því að leggja svona mikla áherslu á frið og tregðu til að beita hernaði. „Við viljum ekki nýtt Írak. Við viljum ekki nýtt Afganistan,“ sagði hann. „Það er ekki rétta leiðin fyrir okkur.“
Forsetinn var hins vegar miklu ágengari og hvassari en keppinauturinn í kappræðunum, sakaði hann um hringlandahátt í utanríkismálum með „rangri og gáleysislegri“ stefnu. Segja má að Obama og Romney hafi haft hlutverkaskipti vegna þess að í slíkum einvígjum er það yfirleitt áskorandinn sem gagnrýnir sitjandi forseta af meiri hörku. Í þetta sinn var þessu öfugt farið, Obama reyndi að leggja áherslu á deilumálin en Romney reyndi oft að gera sem minnst úr ágreiningnum.
Repúblikaninn Rob Portman, öldungadeildarmaður frá Ohio, segir að Romney hafi virst „forsetalegri“ en Obama í kappræðunum. „Það var næstum eins og hann væri sitjandi forseti og Obama væri áskorandinn sem þyrfti að vinna upp forskot og sækja,“ hefur vefútgáfa Wall Street Journaleftir Portman sem aðstoðaði Romney við undirbúng kappræðnanna með því vera í hlutverki keppinautarins.
Romney var vel undirbúinn, kom með þaulæfð svör við spurningunum, einkum þeim fyrstu og í lokin. Obama sótti hins vegar í sig veðrið þegar á leið og var stundum beinskeyttari og hnyttnari en keppinauturinn. Hann talaði við Romney eins og fávíst barn þegar áskorandinn kvartaði yfir því að herskip bandaríska sjóhersins væru nú færri en nokkru sinni fyrr frá árinu 1918. „Við eigum nú líka færri hesta og byssustinga vegna þess að eðli hersins hefur breyst,“ svaraði Obama og uppskar hlátur áhorfenda. „Við eigum líka hluti sem heita flugmóðurskip og eru þannig að flugvélar lenda á þeim. Við eigum þessi skip sem sigla neðansjávar, kjarnorkukafbáta.“