Komnar í fangabúðirnar

Tveir meðlimir Pussy Riot eru nú komnar í afskekktar fangabúðir í Rússlandi. Þær eru vistaðar á sitt hvorum staðnum.

 Nadezhda Tolokonnikova er í vinnubúðum 14 í Mordóvíu og Maria Alyokhina er í vinnubúðum 32 í Perm, segir lögmaður þeirra, Violetta Volkova. Hún segist ekki hafa fengið opinberar upplýsingar um þetta heldur hafi hún þurft að fá þær frá sínum heimildarmönnum. Rússnesk fangelsismálayfirvöld eru skyldug til að láta ættingja vita um hvar fólk er vistað, innan tíu daga frá því að það er innritað í fangelsi.

Fangelsið í Mordóvíu er þekkt fyrir harðræði. Perm-búðirnar eru taldar skárri, þær eru í nálægð við borg og um 1.400 kílómetrum frá Moskvu.

Konurnar tvær voru dæmdar í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa ruðst inn í kirkju og flutt þar pönkbæn gegn Pútín forseta. Þriðja stúlkan var látin laus.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert