Stríð gegn eiturlyfjum engin lausn

Aleksander Kwasniewski fyrrverandi forseti Póllands og Fernando Henrique Cardoso fyrrverandi …
Aleksander Kwasniewski fyrrverandi forseti Póllands og Fernando Henrique Cardoso fyrrverandi forseti Brasilíu á fundi GCDP í Varsjá í dag. AFP

Stríðið gegn eiturlyfjum er tapað. Lausnin er ekki að banna fíkniefni heldur setja skýra löggjöf og efla forvarnir. Þetta segir Alþjóðanefnd um stefnu í eiturlyfjamálum (GCDP), sem sett var á fót 2010 en í henni sitja m.a. fyrrverandi forsetar Brasilíu, Kólumbíu, Mexíkó og Póllands, Kofi Annan fyrrverandi aðalirtari Sameinuðu þjóðanna og rithöfundarnir Carlos Fuentes og Mario Vargas Llosa. 

HIV faraldur afleiðing stríðsins gegn eiturlyfjum

Síðustu áratugi hefur gríðarlegum fjármunum verið varið í stríðið svo nefnda gegn eiturlyfjum á heimsvísu, en þrátt fyrir það hefur ekki tekist að stemma stigu við flæði fíkniefna milli landa. Raunar benda rannsóknir sem Alþjóðanefndin hefur látið vinna undanfarin tvö ár til þess að eini afraksturinn sé sá að fíkniefnasala blómstri meira en nokkru sinni. 

Afleiðingarnar hafa verið hörmulegar fyrir heilsu og öryggi almennra borgara, að sögn nefndarinnar sem sendi frá sér í dag við upphaf umræðna um lögleiðingu fíkniefna í Varsjá í Póllandi í dag. „Stríðið gegn eiturlyfjum hefur hrundið af stað HIV og alnæmisfaraldri meðal eiturlyfjanotenda," sem séu tregir til að leita sér læknisaðstoðar af ótta við að vera dæmdir.

380% meira af heróíni

Sú nálgun að gera fíkniefnaneyslu saknæma og eyða stórfé í aðgerðir gegn framleiðendum, smyglurum og neytendum ólöglegra fíkniefna til að draga úr framboði og neyslu, eru augljóslega misheppnuð að mati nefndarinnar.

Sem dæmi má nefna að framboð af ólöglegum ópíumefnum, s.s. heróíni, hafi margfaldast um 380%, frá 1000 tonnum árið 1980 upp í 4.800 tonn árið 2010. Og það þrátt fyrir að síhækkandi útgjöld til baráttunnar gegn fíkniefnasmygli. Fíkniefnaheiminum fylgir gríðarlegt ofbeldi og glæpir sem hefur grasserað í Kólumbíu, Brasilíu og Mexíkó. Fyrrverandi forsetar þessara landa telja að þörf sé á nýrri nálgun. 

Hjálpar ekki að læsa fíkla inni

Cesar Gaviria fyrrverandi forseti Kólumbíu segir að hluti lausnarinnar felist í því að flytja fjármuni landa sem varið er í málaflokkinn frá fangelsum og lögreglu yfir í forvarnir. Auk þess þurfi að þrýsta á Bandaríkjaþing að gera lagabreytingu, „því annars mun ofbeldið í Suður-Ameríku, Mexíkó og Mið-Ameríku fara úr böndunum og við munum endanlega tapa“.

Formaður Alþjóðanefndarinnar er Fernando Henrique Carodoso, fyrrverandi forseti Brasilíu. Hann kallar eftir því að stjórnvöld um allan heim „prófi sig áfram með að setja lög og reglur um fíkniefni, s.s. maríjúana, líkt og gert hefur verið með tóbak og áfengi".

Carodoso leggur til að settar verði víðtækar hömlur og takmarkanir á framleiðslu, sölu, auglýsingu og neyslu efna til að fæla fólk frá neyslu þeirra, án þess þó að gera neysluna saknæma. „Eiturlyfjafíklar skaða vissulega sjálfa sig og fjölskyldur sínar, en það hjálpar þeim ekki að læsa þá inni.“

Gaviria segir að stefnubreyting í þessa átt gæti orðið fyrr en margir haldi. „Næstum allir forsetar telja að [núverandi] stefnu verði að breyta. Það er enginn stuðningur lengur við bannstefnu, ekki einu sinni í Bandaríkjunum. Enginn bandarískur stjórnmálamaður talar fyrir banni. Ég hef ekki heyrt af neinum. Þeir hafa bara hætt að tala um það.“

Tapað stríð gegn fíkniefnum

Lögregla staflar heróíni og kókaínnu sem lagt var hald á …
Lögregla staflar heróíni og kókaínnu sem lagt var hald á í Panama. AFP
Lögreglumaður í Taílandi gætir metamfetamíns sem lagt var hald á.
Lögreglumaður í Taílandi gætir metamfetamíns sem lagt var hald á. AFP
12 tonn af ólöglegum fíkniefnum brennd í Líma í Perú.
12 tonn af ólöglegum fíkniefnum brennd í Líma í Perú. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert