Orð Richards Mourdocks, öldungadeildarþingmanns Repúblikana í gær um að þungun í kjölfar nauðgunar sé „vilji guðs“, gæti haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir möguleika Mitts Romneys í forsetakosningunum.
Konur eru fjölmennar í hópi þeirra sem enn eiga eftir að gera upp hug sinn og umræða um rétt kvenna til fóstureyðinga gæti dregið athyglina frá efnahagsmálum á kostnað Romneys.
Á þingfundi í gær sagði Mourdock að hann teldi að líf hefðist við getnað og sagðist andvígur fóstureyðingum í öllum tilvikum, nema þegar líf móðurinnar væri í hættu. „Ég velti þessu lengi fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að lífið er gjöf frá guði. Ég tel að jafnvel þegar líf kviknar við þær hræðilegu aðstæður sem nauðgun er, þá sé það eitthvað sem guð vildi að gerðist.“
Kosningastjórar Romneys hófust þegar handa við að skapa fjarlægð á milli hans og Mourdocks og lýstu því yfir að Romney væri ekki sammála þessu. Áður hefur Romney lýst því yfir að hann sé andvígur fóstureyðingum í öllum tilvikum nema þegar um nauðgun eða sifjaspell sé að ræða, eða þegar líf móðurinnar sé í hættu. Hann hefur heitið því að komist hann til valda, muni hann beita sér fyrir því að ógilda dóm hæstaréttar Bandaríkjanna frá árinu 1973 um að hverju og einu ríki sé í sjálfsvald sett hvort fóstureyðingar séu löglegar.
Barack Obama forseti Bandaríkjanna hefur í kosningabaráttunni lagt áherslu á það sem hann kallar öfgafull viðhorf Romneys og annarra Repúblikana til fóstureyðinga og ýmissa réttinda kvenna. Hann hefur sagt Romney vilja færa félagsleg réttindi aftur til sjötta áratugarins.
Demókratar voru ekki seinir á sér og fordæmdu ummæli Mourdocks. Einn þeirra er Dan Parker, þingmaður Demókrata. „Sem kaþólikki er ég agndofa yfir því að Mourdock skuli ýja að því að nauðgun sé vilji guðs.“
Ummæli annars Repúblikana, Todds Akins, að við „löggilda nauðgun“ brygðist kvenlíkaminn við til að reyna að loka á þungun, vöktu mikla reiði í ágúst.