Myndir af ofbeldi kennara ofbjóða Kínverjum

AFP

Tveir kennarar í Zhejiang-héraði í Kína hafa verið handteknir eftir að myndir birtust á netinu sem sýna þá beita nemendur ofbeldi. Annar kennarinn lyfti nemanda upp á eyrunum og hinn sló nemendur í leikskóla ítrekað utan undir.

Á myndinni sést ungur drengur æpa af sársauka þegar kennarinn lyftir honum upp á eyrunum. Lögreglan yfirheyrði kennarann sem sagðist hafa gert þetta til skemmtunar.

Myndskeiðið sem sýnir leikskólakennara lemja nemendur með flötum lófa er ekki síður hrikalegt. Það sýnir kennarann lemja ítrekað nokkur leikskólabörn.

Faðir eins barnsins kærði málið til lögreglu eftir að barnið kom heim með bólgnar og rispaðar kinnar. Ofbeldið náðist á myndband á öryggismyndavél sem var í skólastofunni.

Mikil umræða á sér nú stað í Kína um ofbeldi gegn nemendum, en fjallað hefur verið um fleiri mál af þessum toga í kínverskum fjölmiðlum. Yfirvöld menntamála hafa heitið því að rannsaka málið. Reglur voru settar í júní á þessu ári sem banna líkamlegar refsingar í kínverskum skólum.

Myndskeiðið á youtube

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert