Lögregluþjónn í New York var handtekinn í gær grunaður um að hafa ætlað sér að ræna tugum kvenna, grilla þær og borða.
Í kæru á hendur Gilberto Valle, sem er í lögreglunni í New York, kemur fram að hann hafi skipulagt mannát ásamt félaga sínum. Eiga þeir að hafa rætt um að nota klóróform til að svæfa konurnar. Síðan ætluðu þeir að fara með þær heim til Valle þar sem til stóð að elda þær. Sá lögregluþjónninn fyrir sér að elda þær lifandi á teini.
Valle, sem starfaði í Harlem, var handtekinn á heimili sínu í Queens. Samkvæmt frétt AFP var félagi hans ekki handtekinn og hefur ekki verið lögð fram kæra á hendur honum. Engin kona varð fyrir barðinu á mönnunum.
Mary Galligan, hjá bandarísku alríkislögreglunni (FBI), segist vera orðlaus yfir málinu og að í kærunni sé vísað í orð Valles sjálfs. FBI fékk upplýsingar um áform Valles í september en þá kom í ljós að hann hafði mánuðina á undan rætt áætlun sína um mannát við félaga sinn í gegnum tölvupóst og samtöl á netinu.
Í tölvu hans fundust upplýsingar um að minnsta kosti eitt hundrað konur sem hann sá fyrir sér sem vænleg fórnarlömb. Var þar að finna myndir að þeim og persónulegar upplýsingar. Er talið að hann hafi með ólöglegum hætti nýtt sér upplýsingar úr skjalasöfnum lögreglunnar til þess að finna konurnar sem hann ætlaði að myrða. Þær sem lögreglan hefur rætt við kannast allar við Valle.
Eins virðist sem hann hafi ætlað sér að ræna konu fyrir ónafngreindan mann fyrir 5 þúsund Bandaríkjadali. Ætlaði hann að koma konunni til kaupandans á lífi en ætlaði ekki að taka þátt í að nauðga henni.
Ætlaði að elda konurnar yfir hægum eldi svo þær myndu lifa lengur
Valle hafði meðal annars ætlað sér að greiða öðrum manni fyrir að aðstoða sig við verknaðinn. Í einu samtalanna á netinu milli Valle og ónafngreinds félaga er Valle spurður að því hversu stór bakaraofninn sé á heimili hans. Svarar Valle því til að hann sé nægjanlega stór til þess að rúma kvenlíkama svo lengi sem hann legði fætur hennar saman. Hans eftirlætis kjötmáltíð væri grillað kjöt á teini yfir opnum eldi og því vildi hann reka tein í gegnum stúlkurnar en þar sem þær myndu deyja við það er teinninn yrði rekinn í gegnum þær þyrfti hann væntanlega að festa fórnarlambið við einhvers konar tæknibúnað. „Elda hana á lágum hita svo hún haldist lifandi eins lengi og auðið er,“ skrifar Valle í einu bréfanna.
Þrátt fyrir að hafa ekki náð að myrða neina stúlku á Valle að hafa náð að hitta eitt af fórnarlömbum sínum og borða með því á veitingastað í New York.
Yfirsaksóknari New York borgar, Preet Bharara, segir að áætlanir Gilberto Valle um að ræna konum svo hann gæti nauðgað þeim, pyntað, myrt, eldað og borðað séu samviskulausar og skelfilegar. Ekki síst fyrir þær sakir að Valle starfi sem lögreglumaður og fái greitt fyrir að gæta og vernda borgara New York-borgar.