Danir vilja ekki taka upp evruna

mbl.is

Meirihluti Dana vill ekki skipta dönsku krónunni út fyrir evruna ef marka má nýlega skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir dagblaðið Berlingske. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru 67% andvíg því að taka upp evruna, 22% eru því hlynnt og 11% óákveðin.

Ef aðeins er tekið mið af þeim sem taka afstöðu með eða á móti eru rúmlega 75% andvíg því að evran verði tekin upp í Danmörku í stað dönsku krónunnar.

Einnig er spurt að því í skoðanakönnuninni hvort aðspurðir telji að Danir stæðu betur eða verr að vígi efnahagslega ef þeir væru með evruna sem gjaldmiðil. 46% telja að Danir stæðu verr að vígi með evruna, 27% betur og 16% taka ekki afstöðu.

Þá er spurt hvort fólk sé sammála því eða ósammála að Danmörk ætti að taka þátt í frekari samruna á vettvangi Evrópusambandsins. 46% eru ósammála því en 35% sammála. 19% taka hins vegar ekki afstöðu til málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka