Fellibylurinn Sandy nálgast Bandaríkin og talið er að hann geti gengið á land á mánudag. Bandarísku forsetaframbjóðendurnir eru á meðal þeirra sem hafa orðið að breyta sínum ferðaáætlunum vegna Sandy. Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur fundað með yfirmönnum almannavarna til að ræða viðbúnað.
Vindhraði fellibylsins mælist nú 33 metrar á sekúndu og mun hann aukast þegar hann sameinast öðru óveðri sem átti upptök sín í vesturhluta Bandaríkjanna.
Talið er að Sandy geti farið yfir nokkur af svokölluðum lykilríkjum í kosningabaráttunni en talið er að óveðrið geti haft áhrif á líf um 60 milljóna Bandaríkjamanna.
Þegar klukkan sló miðnætti í nótt var miðja fellibylsins um 530 km suður af Cape Hatteras í Norður-Karólínu.
Talsmaður bandarísku almannavarnanna segir að bylurinn ógni ekki aðeins strandlengju landsins heldur mun stærra svæði.
60 hafa látist af völdum fellibylsins á Karíbahafi.