Íbúum á Hawaii-eyjum á Kyrrahafi hefur verið gert viðvart vegna flóðbylgju sem fylgdi í kjölfar öflugs jarðskjálfta sem varð í nótt við vesturströnd Kanada. Viðvörunarflautur fóru í gang og búist var við að ölduhæð gæti náð tveggja metra hæð á sumum svæðum.
Voru íbúarnir hvattir til að grípa til nauðsynlegra aðgerða svo koma mætti í veg fyrir dauðsföll, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.
Skjálftinn mældist 7,7 stig en engar fréttir hafa borist af eyðileggingu af völdum hans í Kanada.
Einnig voru gefnar út viðvaranir vegna flóðbylgju sem gæti skollið Alaska og Bresku Kólumbíu, en fljótlega var dregið úr hættunni.
Skjálftinn varð um 200 km suðvestur af kanadíska bænum Prince Rupert og mældist hann á 18 km dýpi.