Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Vestur-Virginíuríki í Bandaríkjunum vegna fellibylsins Sandy. Búist er við mikilli snjókomu og snjóbyl í kjölfar Sandy.
Nokkuð hefur dregið úr vindhraðanum, sem mældist tæplega 137 kílómetrar á klukkustund eða 38 metrar á sekúndu um klukkan 23 að íslenskum tíma.
Neyðarástandið nær til allra 55 sýslna í ríkinu, en áður hafði verið varað við snjóbyl í 14 þeirra. Snjókoman orsakast af því að raki sem fylgir hvirfilbylnum mætir köldum loftstraumum úr vestri.
Áhrifa Sandy er nú farið að gæta víða á austurströndinni; óveðrið fellir tré sem draga rafmagnslínur með sér í fallinu og við það verða milljónir heimila rafmagnslausar.