Djöfulleg hrekkjavaka fordæmd af kirkjunni

Rómversk-kaþólska kirkjan í Póllandi lýsti í dag áhyggjum sínum af vaxandi áhrifum hrekkjavökunnar, en kirkjunnar menn segja hefðir henni tengdar djöfullegar.

„Hrekkjavakan hampar dulspeki og göldrum," segir í yfirlýsingu kirkjunnar í dag. Hrekkjavakan er á miðvikudaginn, 31. október, en henni var víða fagnað nú um helgina og fara vinsældir þessarar hátíðar vaxandi víða um heim, þar á meðal á Íslandi og í Póllandi. 

„Undir því yfirskini að verið sé að skemmta sér er börnum og unglingum boðið að taka þátt í sértrúarathöfnum sem eru í andstöðu við boðskap kirkjunnar og kristninnar,“ segir í yfirlýsingu rómversk-kaþólsku kirkjunnar.

Hrekkjavaka er haldin kvöldið fyrir hina kaþólsku hátíð allra heilagra messu, en hún fer fram þann 1. nóvember ár hvert. Hið enska heiti Hrekkjavöku, Halloween, ber þess merki en uppruni orðsins er All Hallows Eve, sem beinlínis þýðir kvöldið fyrir allra heilagra messu. 

Pólskir kaþólikkar halda upp á Allra heilagra messu með því að leggja kransa og kerti á leiði látinna ættingja. Útskorin grasker og grímubúningar eru hins vegar farin að verða æ meira áberandi í aðdraganda þessarar hátíðar og rómversk-kaþólska kirkjan þar í landi er ekki par hrifin af þróuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert