Einn af hverjum fimm fjölskyldum í Bretlandi býr ekki við sómasamlegar aðstæður vegna þess að launin eru svo lág að ekki er hægt að framfleyta fjölskyldu á þeim. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar KPMG sem fjallað er um í breska dagblaðinu Guardian í dag.
Þar kemur fram að 4,82 milljónir vinnandi manna eru með lægri laun en lífskjaraviðmið gera ráð fyrir.
Samkvæmt þeim eru viðmiðin 8,30 pund á tímann eða 1.700 krónur á tímann í London en 7,20 pund, 1.477 krónur á tímann, annars staðar í landinu.
Hart hefur verið sótt að ríkisstjórn Bretlands að hækka lágmarkslaun en samkvæmt þeim er óheimilt að greiða lægra en 6,19 pund, 1.270 krónur, á tímann. Stjórnvöld hafa ekki farið að því enda óttast þau að það geti haft þau áhrif að atvinnuleysi eykst.
Norður-Írar standa verst að vígi en þar eru 24% íbúa með lægri laun en framfærsluviðmið kveða á um. Í Wales er hlutfallið 23%.
Um 70% þeirra sem starfa við hreingerningar, þjónustu á veitingahúsum og í eldhúsum veitingastaða eru með lægri laun heldur en duga til framfærslu. Um 41% þeirra sem tóku þátt í rannsókninni segja lífskjör þeirra verri í dag en þau voru fyrir mánuði.