„Ofurstormurinn“ Sandy hefur í nokkra klukkutíma látið til sín taka við austurströnd Bandaríkjanna með þeim afleiðingum að þar er nú gríðarlegt flóð, rokhvasst og úrhellis rigning. Gekk veðurhamurinn fyrst á land í New Jersey og olli metflóði í New Yorkborg.
Við landtöku rumdi sollinn sær og glymjandi hrannir gengu á land svo margt varð undan að láta. Við undirspil Ránar fór borgin Atlantic City í New Jersey undir vatn og íbúar hennar, 30.000 manns, flýðu boðaföllin. Veðurhæðin mældist yfir 130 km/klst.
Lestar- og bílagöng fylltust af sjó og rafmagn fór af neðri hluta Manhattan, sem er undir sjó. Fylltust Battery-göngin sem tengja Long Islands og Manhattan saman. Óstaðfestar fregnir fara af sprengingu í Consolidated Edison raforkuverinu á austurhluta Manhattan.
Þá fór vararafmagn af sjúkrahúsi New York háskóla og reynt var að koma sjúklingum þaðan í betra skjól. Byggingarkranar gáfu sig og skrapaði einn slíkur framhlið af fjögurra hæða húsi er hann hrundi.
Michael Bloomberg borgarstjóri sagði veðurhaminn hafa verið kröftugri en verstu spár gerðu ráð fyrir. Hann sagði að upp úr miðnætti, fjórum til fimm stundum eftir að Sandy gekk inn á land, ætti að byrja að draga úr flóðum.
Þegar hafa 10 dauðsföll verið rakin til veðursins meðfram austurströndinni; í New Jersey, New York, Pennsylvaníu og Connecticut. Margir hinna látnu fórust er tré féllu á þá.
Talið er að líf og starf allt að 50 milljóna manna hafi gengið úr skorðum vegna veðursins. Þar af var um einni milljón manns gert að yfirgefa heimili sína meðan stormurinn var í aðsigi.
Rafmagn fór af heimilum allt að þriggja milljóna manna er Sandy gekk inn yfir ströndina klukkan 20 að staðartíma í gærkvöldi, á miðnætti að íslenskum tíma. Talið er að þar geti verið um miklu meiri fjölda að ræða. Þá fæst ekki heildarmynd á tjón af völdum veðurhamsins fyrr en í birtingu.
Sérstakur viðbúnaður var hafður í elsta kjarnorkuver Bandaríkjanna, Oyster Creek í New Jersey, af ótta við að sjór myndi leita inn í verið á flóðinu.
Sandy lætur til sín taka á 1300 kílómetra breiðu belti frá Atlantshafi í austri til Mikluvatna í Miðvesturríkjunum. Ögn dró úr krafti stormsins er það gekk upp að ströndinni og rann saman við vetrarveðurkerfin þar. Taldist þá fellibylur í stað hvirfilbyls.
Um 375.000 manns var skipað að yfirgefa heimili sín á neðri Manhattan í New York er árnar Hudson og East tóku að flæða yfir bakka sína.
Opinberar samgöngur liggja niður í fjölda borga með austurströndinni og þúsundir flugvéla kyrrsettar á flugvöllum.
Að sögn veðurfræðinga mun Sandy láta til sín taka í allt að 12 ríkjum næsta sólarhringinn.