Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir meiriháttar neyðarástandi í New York- og New Jersey-ríkjum vegna óveðurslægðarinnar Sandy. Hann lætur kosningabaráttuna lönd og leið og einbeitir sér að því að skipuleggja viðbrögð við hamförunum.
„Kosningarnar munu sjá um sig sjálfar í næstu viku,“ sagði Obama við fréttamenn í dag. „Núna setjum við það í forgang að bjarga mannslífum og við munum bregðast eins hratt við og við getum til að koma efnahag ríkjanna aftur í samt lag.“
Eldur kom upp af völdum rafmagns í um 50 íbúðarhúsum í Queens-hverfinu í New York í dag og börðust slökkviliðsmenn við eldinn fram eftir degi.
Að minnsta kosti 16 manns hafa nú látist af völdum Sandy. Nokkurra er saknað. Fólkið lést í Connecticut-, New York-, New Jersey, Maryland-, Pennsylvaníu-, Vestur-Virginíu- og Norður-Karólínuríkjum.
Nokkrir hinna látnu létust er tré féllu á þá. Áður höfðu að minnsta kosti 67 látist af völdum óveðursins.
Þúsundir björgunarsveitarmanna og þjóðvarðliða eru að störfum um gjörvalla norðausturströndina og hafa yfirvöld í Bandaríkjunum varað íbúa svæðisins við að lífi þeirra gæti verið hætta búin og var hundruðum þúsunda íbúa þess fyrirskipað að yfirgefa heimili sín og leita skjóls í neyðarskýlum.
Nokkuð dró úr krafti lægðarinnar er hún kom að landi á miðnætti en ekki er útséð um að hún geti aftur sótt í sig veðrið.
Vatn flæddi inn í sjö göng fyrir neðanjarðarlestir á Manhattan og bílar flutu um götur í fjármálahverfinu. „Neðanjarðarlestarkerfið í New York er 108 ára gamalt, en aldrei áður hefur það lent í hamförum sem þessum,“ sagði Joseph Lhota, framkvæmdastjóri samgöngusviðs borgarinnar, við AFP-fréttastofuna í dag.
Tveimur kjarnorkuverum, öðru í New York og hinu í New Jersey, hefur verið lokað, en gefin hefur verið út yfirlýsing um að almenningi muni ekki stafa nein hætta af. Þá eru líkur á að tveimur kjarnorkuverum í New Jersey verði lokað til viðbótar. Verði af því mun orkuframleiðsla ríkisins minnka um helming.
Matsfyrirtækið Eqecat, sem leggur mat á tjón af völdum náttúruhamfara, telur að veðrið hafi áhrif á meira en 60 milljónir Bandaríkjamanna, sem er einn fimmti hluti landsmanna, og að fjárhagslegt tjón af völdum veðursins verði allt að 20 milljarðar Bandaríkjadollara. Það samsvarar um 2.552 milljörðum íslenskra króna.