Myrkur á Manhattan - 13 látist í fellibylnum

Sjór fyllir sjö göng neðanjarðarlestarkerfisins í New York í kjölfar þess að fellibylurinn Sandy lét til sín taka á svæðinu í nótt. Sex skemmur fyrir strætisvagna eru fullar af vatni. Talsmaður almenningssamganga í borginni segir ástandið aldrei hafa verið jafnslæmt í sögunni. Hér má sjá kort sem sýnir hvar Sandy er og hvert hann stefnir.

Sjá einnig ítarlega frétt mbl.is: Glymjandi hrannir gengu á land.

„Neðanjarðarlestarkerfið í New York er 108 ára gamalt en það hefur aldrei orðið fyrir hamförum sem þessum,“ segir Joseph Lhota, stjórnarformaður Metropolitan Transportation Authority (MTA).

Í New York er ástandið einna verst á Manhattan. Um hálf milljón heimila og fyrirtækja er nú án rafmagns.

Veðurofsinn sem fylgir Sandy hefur myrkvað New York. Fólk er áhyggjufullt og sumir skelfingu lostnir.

Rafmagnslaust er á Manhattan og í fjármálahverfinu Wall Street. Enn er óljóst hvenær hægt verður að koma rafmagni aftur á.

Mittisdjúpt vatn er á mörgum götum Manhattan. Fáir eru á ferli. Í fjarska heyrist sírenuvæl en annars er undarlega hljótt. Einu ljósin sem sjást eru kertalogar í gluggum húsanna og blikkandi ljósin á bílum lögreglunnar.

„Þetta er hræðilegt. Það eru engin ljós á götunum og ekkert fólk,“ segir Ilona, 22 ára gamall nemi frá Rússlandi er hún lítur yfir flóðið á götunum.

Ekki einu sinni umferðarljósin loga. Yfirvöldum tókst að opna George Washington-brúna svo að fólk gæti komist til New Jersey.

Örvæntingarfullir verslunar- og fyrirtækjaeigendur athuga skemmdir og vona það besta. Kona sem rekur föndurbúð þakkar fyrir að ekkert vatn hefur komst inn í verslunina - ekki einu sinni kjallarann.

Sandy fylgir mikil úrkoma og East River flæddi yfir bakka sína. Vatnið fór inn í göng neðanjarðarlestarkerfisins. Talið er víst að samgöngur muni ekki komast í samt horf á næstu dögum.

Einhverra hluta vegna fór rafmagnið ekki af Goldman Sachs-bankanum þó að öll hús í nágrenninu séu myrkvuð. Á götum og gangstéttum við bankann flæðir vatn.

Sorp er í flóðvatninu á nokkrum stöðum en byrjað er að hreinsa til.

Björgunarsveitarmenn hafa þurft að fara til Staten Island og Coney Island til að sækja fólk sem hlýddi ekki fyrirmælum um að yfirgefa hús sín. Vatnið nær upp undir rjáfur á sumum húsanna. Lögreglan óskaði eftir því að fá báta til að sinna björgunarstörfum á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti í flóðunum.

Augljóst er að skemmdir eru víða í borginni.

„Ég óttast um líf fólks,“ segir borgarfulltrúinn Vincent Ignizio. Að minnsta kosti einn maður hefur látist í borginni er tré féll á hann. Talið er að 13 hafi látist vegna fellibylsins á austurströnd Bandaríkjanna síðustu klukkustundir.

Manhattan-brúin lokaðist vegna rafmagnsleysis. Um 500 þúsund heimili eru án …
Manhattan-brúin lokaðist vegna rafmagnsleysis. Um 500 þúsund heimili eru án rafmagns. AFP
Maður gengur um Manhattan í New York.
Maður gengur um Manhattan í New York. AFP
Vatni dælt upp úr kjallara í New York.
Vatni dælt upp úr kjallara í New York. AFP
AFP
Rafmagnslaust er víða en talið er að fellibylurinn Sandy muni …
Rafmagnslaust er víða en talið er að fellibylurinn Sandy muni hafa áhrif á líf 50 milljóna manna næstu klukkustundir. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert