Erlendar fjárfestingar í Simbabve verða verndaðar þrátt fyrir lagasetningu sem neyðir erlend fyrirtæki í landinu til þess að gefa meirihluta hlutafjár í þeim til þeldökkra íbúa landsins. Þetta sagði utanríkisráðherra Simbabve, Simbarashe Mumbengegwi, við fjölmiðla í suðurafrísku borginni Pretoriu í dag.
Fréttaveitan AFP greinir frá þessu í dag en Mumbengegwi lét þessi ummæli falla eftir fund með utanríkisráðherra Suður-Afríku, Maite Nkoana-Mashabane.
Um er að ræða lög sem sett voru í Simbabve árið 2010 af ríkisstjórn Roberts Mugabes, forseta landsins. Samkvæmt þeim verða erlend fyrirtæki í Simbabve að eftirláta þeldökkum íbúum landsins 51% hlut í þeim.
Fram kemur í fréttinni að ýmis námufyrirtæki hafi þegar orðið við kröfum stjórnvalda en ráðamenn í landinu beindu spjótum sínum að fjármálafyrirtækjum og hafa þau fengið frest þar til í júlí á næsta ári til þess að fara að lögunum.
Þá segir ennfremur að Mugabe hafi hótað að yfirtaka þau fyrirtæki sem ekki verða við kröfum ríkisstjórnar hans í þessum efnum.