Slóð eyðileggingar í Ameríku

Slaknað hefur á veðurofsanum í austurhluta Bandaríkjanna, en Sandy skilur eftir sig slóð eyðileggingar frá Karíbahafi til Kanada. Um 100 eru látnir og neyðarástand enn ríkjandi hjá milljónum manna. Hamfarirnar ganga yfir viku fyrir forsetakosningarnar en eftir á að koma í ljós hvaða áhrif þær hafa.

Öll austurströnd Bandaríkjanna hefur verið meira og minna lömuð í dag. Gróflega hefur verið áætlað að fjárhagslegt tjón af völdum Sandy nemi allt að 20 milljörðum dala, bæði hjá heimilum og fyrirtækjum. Óbeint heildartjón bandaríska hagkerfisins gæti verið allt frá 30-50 milljörðum dala að mati hagfræðinga hjá IHS Global Insights.

Heilu hverfin mara í hálfu kafi þar sem mest flæddi og átta milljónir manna eru rafmagnslausar. Allir bankar í New York auk verðbréfamiðlunarinnar og Nasdaq hafa verið lokaðir í tvo sólarhringa en á morgun verða dyrnar opnaðar að nýju. Sömuleiðis er unnið er að því að koma samgöngum aftur af stað, en bæði strætisvagnakerfi, neðanjarðarlestir og áætlunarflug hafa legið niðri í New York og víðar. 

Óvíst um áhrifin á kosningarnar

Barack Obama þykir hafa gengið skörulega fram í dag og hefur verið í virkum samskiptum við stjórnvöld og sjálfboðaliðasamtök. „Ekki velta því fyrir ykkur hvers vegna við getum ekki gert eitthvað. Ég vil að þið finnið út úr því hvernig við getum gert eitthvað,“ voru orðin sem Obama beindi til opinberra starfsmanna í dag eftir heimsókn í Rauða krossinn. „Ég vil að þið klippið á skriffinnskuna. Á þessu stigi málsins er engin afsökun fyrir því að bregðast ekki við.“

Talið er að viðbrögð Obama við illviðrinu gætu skilað sér í auknu fylgi síðustu dagana fyrir kosningarnar, enda hefur keppnautur hans Mitt Romney fallið nokkuð í skuggann. Ákveðinn hluti kjósenda hefur enn ekki gert upp hug sinn samkvæmt skoðanakönnunum og gæti þróun mála nú því skilið milli feigs og ófeigs í kappinu um forsetastólinn. Staðreyndin er þó sú að helstu óvissuríkin, s.s. Ohio, Flórída, Colorado og Iowa, sluppu við storminn. 

Bæði Obama og Romney verða að stíga varlega til jarðar til að vera ekki sakaðir um að nýta aðstæður sjálfum sér til framdráttar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert