Belgíska lögreglan veit nú ekki sitt rjúkandi ráð því hún hefur glatað lyklum að 180 klefum í fangelsinu í Leuven.
Að sögn blaðsins Het Laatste Nieuws uppgötvaði lögreglan fyrir viku hvernig komið var. Leikur jafnvel grunur á að einhver fanganna hafi komist yfir lyklana.
Starfsfólk fangelsisins hefur leitað í krókum og kimum innan fangelsismúrana en ekki fundið lyklakippu fangelsisstjórans. Einn þeirra var varalykill sem gengur að klefunum 180 og annar gengur að millihurðum sem stúka 20 deildir fangelsisins af.
„Sá sem með lyklana er getur farið hvert sem vill innan múranna,“ hefur blaðið eftir fangaverði. Yfirstjórn fangelsisins hefur ekki hugmynd um hvort lyklarnir voru teknir ófrjálsri hendi eða týndust fyrir slysni.
Fyrstu dagana var farið eins leynt með lyklahvarfið og frekast var unnt en um síðir lak fréttin út fangelsinu og til fjölmiðla. Í öryggisskyni er verið að endurnýja ýmsar læsingar í fangelsinu svo handhafi horfnu lyklanna geti ekki gert sér mat úr feng sínum.