Að minnsta kosti 40 manns eru látnir af völdum fárviðrisins Sandy í norðausturhluta Bandaríkjanna og Kanada. Minnst átta milljónir manna búa við rafmagnsleysi og almenningssamgöngur liggja niðri. Ekki er búist við að líf færist í eðlilegt horf fyrr en eftir marga daga.
Að sögn Michaels Bloomberg borgarstjóra í New York geta liðið nokkrir dagar þangað til tekst að koma rafmagni á í borginni allri. Vitað um 18 dauðsföll af völdum hamfaraveðursins í borginni en áður en Sandy gekk á land í Bandaríkjunum fórust 70 af hans völdum á Karíbahafi.
Almenningssamgöngur í New York liggja niðri og óvíst er hvenær tekst að koma þeim aftur í samt lag, að sögn Bloomberg borgarstjóra. Áður en hægt er að hleypa neðanjarðarlestum af stað þarf að dæla sjó úr jarðgöngum og þvo seltu úr rafkerfi þeirra.
Þá verður tæpast hægt að taka PATH-lestirnar milli New York og New Jersey í notkun fyrr en eftir sjö til 10 daga, að sögn Chris Christie ríkisstjóra í New Jersey.
Meira en 18.000 flugferðum hefur verið aflýst á New York svæðinu en reiknað er með að Kennedyflugvöllur verði opnaður í dag klukkan 11 að íslenskum tíma, en með takmarkaðri umferð þó.
Þá er reiknað með að kauphöllin við Wall Street opni í dag, en hún var lokuð í gær og fyrradag. Er það í fyrsta sinn frá árinu 1888 sem hún er lokuð tvo daga í röð.
Gríðarleg snjókoma var af völdum Sandy í Appalachian fjallakeðjunni síðdegis í gær.