Fyrrverandi starfsmaður sjúkrahúss í Leeds segir að fjölmiðlamaðurinn Jimmy Savile hafi komið á sjúkrahúsið um miðjar nætur með unglingsstúlkur. Hann hafi fengið lykil að aðstöðu hjúkrunarfólksins og yfirgefið sjúkrahúsið í dögun.
Terry Pratt starfaði á sjúkrahúsinu (Leeds General Infirmary) en Savile var lengi sjálfboðaliði þar og gaf fjármuni til starfseminnar.
Núverandi yfirmenn sjúkrahússins segjast í áfalli vegna þeirra fjölmörgu kynferðisbrotamála sem hafa komið fram í dagsljósið í tengslum við Jimmy Savile. Mörg þeirra snúa að þeim sjúkrahúsum sem hann starfaði á sem sjálfboðaliði og velgjörðarmaður.
Lögreglan í London telur að Savile hafi brotið gegn um 300 ungmennum á ferli sínum.
Pratt segist hafa fyllst grunsemdum er Savile fór að koma á nóttinni á sjúkrahúsum á níunda áratugnum, ávallt í fylgd unglingsstúlkna. Hann segir þessar næturheimsóknir hafa verið nokkrum sinnum í mánuði. Í hvert skipti var ný stúlka í fylgd með Savile.