Bæjaryfirvöld í Soderhamn í Svíþjóð hafa ákveðið að borga ungu atvinnulausu fólki í bænum peninga til að fara til Noregs þar sem næga vinnu er að hafa.
Soderhamn hefur sett af stað verkefni sem bæjaryfirvöld kalla „atvinnuferð“. Það er hugsað fyrir atvinnulaust fólk á aldrinum 18-28 ára. Þeir sem skrá sig í verkefnið fá farmiða og dagpeninga sem eiga að duga í einn mánuð. Farmiðanum fylgja leiðbeiningar um hvernig sé best að fá vinnu í Noregi.
25% atvinnuleysi er í Soderhamn. Magus Nilsen verkefnisstjóri segir í samtali við Telegraph að þegar atvinnuleysið sé orðið svona mikið þurfi menn að hugsa hlutina upp á nýtt. Fram kom í frétt á BBC að vandi margra sem eru ungir og hafa ekki fundið vinnu sé að þeir nái ekki að öðlast starfsreynslu og sanna sig á vinnumarkaði. Með því að hjálpa fólki til að finna vinnu í Noregi fái fólk þessa starfsreynslu sem geti síðan hjálpað fólki þegar það snúi heim aftur til Svíþjóðar.
Fram til þessa hafa um 100 manns tekið þessu tilboði. Um 12.000 manns búa í Sonderhamn.