Hreinsunarstarf eftir ofsaveðrið Sandy er að hefjast. Skemmdirnar eru gríðarlegar og á meðfylgjandi loftmyndum frá New Jersey og víðar má sjá að heilu bæjarhlutarnir hafa eyðilagst. Forsetinn lofar skjótum viðbrögðum og hraðri enduruppbyggingu.
Þau hafa misst heimili sín, fyrirtækin sín - sitt lífsviðurværi. Margir eru enn strandaglópar í flóðum sem umlykja stór svæði. Íbúar í norðausturhluta Bandaríkjanna eru fyrst núna að sjá afleiðingar ofsaveðursins sem gekk yfir landið á mánudag og þriðjudag. Samgöngur eru enn stopular enda miklar skemmdir á neðanjarðarlestarkerfum t.d. í New York-borg sem og á vegum og öðrum samgöngumannvirkjum á svæðinu.
„Þetta er bara eins og í samgönguverkfallinu fyrir nokkrum árum,“ segir Elizabeth Gorman, íbúi í Queens-hverfinu við fréttamann CNN. Hún var ein fjölmargra sem gekk til vinnu í gær. Enn eru margir án rafmagns, hugsanlega um 5-6 milljónir heimila, samkvæmt frétt AP-fréttastofunnar.
Ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo, hefur lýst yfir neyðarástandi í samgöngum. Ókeypis verður í þær lestir og strætisvagna sem ganga í dag. 14 af 23 neðanjarðarlestarbrautum verða opnar í dag. Engin lest mun þó ganga til neðri hluta Manhattan en þar er enn rafmagnslaust og vatn á götum og í neðanjarðarlestarkerfinu.
Allir flugvellir New York verða opnir í dag en með takmörkunum þó.
Fólk á mesta hamfarasvæðinu á enn í miklum vandræðum með að nálgast nauðsynjavörur. Neyðarskýlum hefur verið komið upp og fjöldi hermanna sinnir björgunarstörfum. Þeir aðstoða við að dæla vatni úr húsum, hreinsa vegi og koma rafmagni á.
Sandy tók sinn toll. Tölur um mannfall eru enn nokkuð á reiki. AP-fréttastofan segir að að minnsta kosti 74 hafi látist í Bandaríkjunum og AFP-fréttastofan segir að Sandy beri ábyrgð á 135 mannslífum í Bandaríkjunum, Kanada og í Karíbahafinu.