Því er haldið fram í nýjum fréttaskýringarþætti ríkissjónvarpsstöðvarinnar France 5, að í stað þess að matreiða sjálf beri 70% veitingahúsa í Frakklandi fram rétti sem þau kaupi inn frosna eða tilbúna utan frá.
Aðstandendur þáttarins grömsuðu meðal annars í ruslatunnum veitingahúsa í leit að sönnunargögnum. Fengu þeir og þekkta menn sem hafa það að starfi að skrifa um veitingahús.
Einn slíkur staðhæfði í þættinum, að lambaskanki sem hann snæddi hafi verið tilbúinn réttur utanað fenginn en ekki „heimalagaður“, eins og þjónn staðarins hélt fram.
Fram kom líka, að á meðan sumir veitingamenn keyptu inn tilbúna rétti notuðu aðrir kollegar þeirra að staðaldri frosið hráefni í stað fersks. Veitingamaður í París sem rætt var við sagði það spara tíma að þurfa ekki að afhýða og þrífa grænmeti og tilgera kjöt.
Hann sagði að öldin væri önnur nú en áður fyrri. „Fyrir 30 árum gátum við unnið í 70 stundir á viku, en í dag megum við ekki vinna meira en 35 stundir. Við höfum þurft að laga okkur að því og velja afurðir sem kalla ekki á mikinn mannafla.“
Í þættinum segist franskur öldungadeildarmaður meðmæltur lagasetningu sem skilyrðir veitingamenn til að taka fram á matseðli hvort réttur verði að öllu leyti til á staðnum eða komi inn á veitingahúsið tilbúinn utan frá, m.a. sem frystivara. Slík lög hafa þegar verið sett á Ítalíu.