Tyrkneska lögreglan beitti táragasi og sprautaði vatni á mótmælendur í Istanbul í dag. Var fólkið að sýna kúrdískum föngum sem eru í hungurverkfalli stuðning.
Um 400 mótmælendur tóku þátt í mótmælum fyrir utan byggingu kúrdíska friðar- og lýðræðisflokksins (BDP). Kölluðu þeir veitið föngum frelsi og fleiri slagorð er lögregla kom á svæðið og hóf að sprauta táragasi á hópinn.
Mótmælendur hrópuðu einnig slagorð til stuðnings Abdullah Öcalan, leiðtoga Verkamannaflokks Kúrdistans (PKK). Öcalan var handtekinn árið 1999 og dæmdur til dauða. Dómnum var síðar breytt í lífstíðarfangelsi sem hann afplánar á tyrkneskri fangaeyju skammt frá Istanbul.
Tyrkneska ríkisstjórnin er undir miklum þrýstingi vegna hungurverkfalls um 700 kúrdískra fanga. Hefur hungurverkfall þeirra staðið yfir í 54 daga. Meðal þeirra sem taka þátt í hungurverkfallinu eru stjórnmálamenn, borgarstjórar, þingmenn og fleiri sem sitja í fangelsi fyrir pólitískar skoðanir sínar en PKK-flokkurinn er bannaður í Tyrklandi og víða skilgreindur sem hryðjuverkasamtök. Fara þeir fram á að banni á notkun tungumáls Kúrda verði aflétt og að aðstæður Öcalans verði bættar í fangelsinu.
Forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, varaði fangana við því í gær að ríkisstjórn Tyrklands myndi ekki láta undan þrýstingi um að láta hryðjuverkaforingja lausan.