Möppur fullar af konum, risavaxinn fugl, 47% kjósenda sem afætur og Clint Eastwood að tala við auðan stól. Það hefur gengið á ýmsu í langri kosningabaráttu sem nú hillir undir lokin á í Bandaríkjunum. Hnífjafnt fylgi mælist með þeim Barack Obama og Mitt Romney, en eitt og annað umdeilt hefur fallið af vörum þess síðastnefnda undanfarið.
Ein spaugilegustu ummæli Romney féllu strax í upphafi kosningabaráttunnar, á fjölmennum fundi í Virginíu í ágúst þar sem hann kynnti varaforsetaefni sitt, Paul Ryan. Mikilvægur hluti setningarinnar féll út hjá Romney þegar hann sagði: „Ég vil að þið takið undir með mér þegar við bjóðum velkominn næsta forseta Bandaríkjanna, Paul Ryan!“
Þá hafa nokkur ummæli Romneys verið umdeild, svo sem þegar hann sagðist hafa beðið um að fundnar yrðu fyrir hann konur sem væru hæfar til að taka þátt í ríkisstjórn hans í Massachusetts, og þá hefðu honum verið færðar „heilu möppurnar fullar af konum“. Ummælin urðu samstundis uppspretta ótal netbrandara sem breiddust eins og eldur í sinu um netið.
Spennandi kosningar framundan
Stóri, guli fuglinn úr Prúðuleikurunum hefur einnig verið óspart notaður í bröndurum gegn Romney, en það er til komið vegna þess að Romney hefur sagst ætla að skrúfa fyrir fjárveitingar til opinberu sjónvarpsstöðvarinnar PBS, sem sýnir m.a. Prúðuleikarana, þrátt fyrir að hann elskaði sjálfur Stóra fuglinn.
Erfiðasta uppákoman fyrir Romney í kosningabaráttunni var samt án efa þegar myndskeiði var lekið af ávarpi hans á fjáröflunarsamkomu með bandarískum auðmönnum, þar sem hann sagði þau 47% sem styddu Obama háð ríkisvaldinu og litu á sig sem fórnarlömb en greiddu engan tekjuskatt.
Romney hefur engu að síður gengið ágætlega að afla sér stuðnings, hann mælist nú með álíka mikið fylgi og sitjandi forseti og því ljóst að kosningarnar á þriðjudag verða afar spennandi.