Eftirminnilegar stundir í baráttu Obama

Barack Obama berst fyrir endurkjöri sem Bandaríkjaforseti. Hann hefur valdið mörgum stuðningsmönnum sínum vonbrigðum á kjörtímabilinu og kveikir ekki sömu ástríður og fyrir fjórum árum. Í kosningabaráttunni hefur hann gripið til ýmissa ráða til að höfða til kjósenda, jafnvel brostið í söng.

Obama hefur átt misgóða spretti í baráttunni við Mitt Romney. Flestum þótti hann hafa staðið sig verr í fyrstu umferð kappræðna forsetaefnanna, en í síðari umferðum bætti hann aðeins í. Honum hefur betur tekist að skauta framhjá óheppilegum ummælum en Romney, og sumt hefur vakið talsverða lukku.

T.d. þegar Romney gagnrýndi að færri skip væru í bandaríska flotanum en árið 1916. Obama svaraði því þá til að vissulega væru herskipin færri, en það sama ætti við um hross og byssustingi, því eðli heraflans hefði einfaldlega breyst. 

Söng lag Al Green

Sérkennileg uppákoma sem átti sér stað í kosningabaráttu Obama í september vakti nokkra gagnrýni, en það var þegar hann heimsótti pítsustað í Flórída og fékk höfðinglegar móttökur. Eigandi staðarins tók utan um forsetann og lyfti honum upp, fyrir framan sjónvarpsmyndavélar að sjálfsögðu. Margir höfðu gaman af en pólitískir andstæðingar Obama sögðu atvikið sett á svið til þess að láta forsetann líta út fyrir að vera „mann fólksins“.

Því var hins vegar tekið með talsverðum fagnaðarlátum þegar Obama brast í söng á fjáröflunarsamkomu í Washington. Söng hann þá línu úr laginu „Let's Stay Together“ með Al Green og þótti hafa góða söngrödd. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert