Úrslitin ráðast í Ohio

Barack Obama og Mitt Romney eru á mikilli þeysireið um innan við 10 ríki þar sem enn ríkir óvissa um hvernig atkvæðin munu falla í kosningunum á þriðjudag. Talið er næsta víst að vinni Obama Ohio á sitt band, auk Wisconsin og Iowa, sé hann vís til að verða annar demókratinn eftir Seinna stríð til að sitja tvö kjörtímabil.

Íbúar Ohio eru nú með pálmann í höndunum og er kosningabaráttan sögð hörðust þar. Enginn dæmi eru þess að síðan í Þrælastríðinu að frambjóðandi repúblikana hafi komist í Hvíta húsið án þess að sigra í Ohio og skoðanakannanir benda nú til þess að Obama njóti nú 2-5% meiri stuðnings en Romney þar. 

Ohio er því á dagskrá beggja forsetaefna á lokadegi kosningabaráttunnar, en Obama stefnir að auki til Flórída og Colorado á meðan Romney ætlar að heimsækja Pennsylvaniu og Virginíu. 

Skoðanakönnun ABC News og Washington Post sem birt var í dag bendir til þess að hnífjafnt sé með frambjóðendunum, því báðir mælast með 48% stuðning. Romney er sem fyrr vinsælastur meðal hvítra eldri borgara og meðlima evangelísku kirkjunnar. Obama nýtur hins vegar mikils fylgis kvenna, litaðra og ungra kjósenda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert