Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu á morgun til að kjósa sér forseta. Þar með lýkur baráttunni um Hvíta húsið sem hefur staðið á milli Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og Mitt Romney, forsetaefnis Repúblikanaflokksins, undanfarna mánuði. Afar mjótt er á mununum og spennan í hámarki.
Á þessari stundu er ekkert öruggt nema sú staðreynd að til að sigra í kosningunum þarf annar hvor frambjóðandinn að tryggja sér að lágmarki 270 kjörmenn af 538 sem fást fyrir sigur í hverju ríki. Það hversu marga kjörmenn hvert ríki gefur af sér fer eftir íbúafjölda. Í fjölmennu ríki á borð við Kaliforníu, þar sem íbúar eru tæpar 38 milljónir, fást 55 kjörmenn. Í Montana, þar sem um ein milljón Bandaríkjamanna býr, eru kjörmennirnir aðeins þrír, svo dæmi séu tekin.
Frambjóðendurnir hafa að undanförnu háð harða kosningabaráttu í svokölluðum lykilríkjum (e. swing states) sem munu ráða úrslitum. Ólíkt flestum öðrum ríkjum er breytilegt á milli kosninga hvort meirihluti íbúa í sveifluríkjunum styðji við bakið á demókrötum eða repúblikönum. Texas og Arizona eru t.d. ríki sem teljast til höfuðvígja Repúblikanaflokksins. Demókrataflokkurinn hefur aftur á móti ávallt getað treyst á stuðning ríkja á borð við Kaliforníu og New York.
Barátta þeirra Romneys og Obama síðustu daga og vikur hefur snúist um að tryggja sér stuðning í umræddum lykil- eða sveifluríkjum, en t.a.m. hefur verið hart barist í Ohio og Flórída að undanförnu. Á kosningavef breska ríkisútvarpsins má skoða kort sem sýnir stöðuna í lykilríkjunum og ríkjum sem frambjóðendurnir eiga vísan stuðning.
Fram kom í fréttaskýringu Karls Blöndals um kosningarnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina, að Obama hafi valdið mörgum stuðningsmönnum sínum vonbrigðum á kjörtímabilinu og kveiki ekki sömu ástríður og fyrir fjórum árum. Romney glími aftur á móti við tortryggni margra repúblikana, sem telji hann villa á sér heimildir og ekki vera sannan íhaldsmann. Á kjördag geti því ráðið úrslitum hvernig kjósendur skili sér á kjörstað.
Bandaríkjamenn eru um 314 milljónir talsins og þar af eru um 240 milljónir þeirra með atkvæðisrétt.
Um miðja 19.öld ákvað Bandaríkjaþing að forsetakosningarnar færu fram fyrsta þriðjudag nóvembermánaðar fjórða hvert ár. Þá voru Bandaríkin samfélag bænda og margir þurftu að leggja land undir fót til að komast á kjörstað, en ferðalagið gat tekið heilan dag. Þriðjudagur varð fyrir valinu þar sem hann hvorki skaraðist á við hvíldardaginn, þ.e. sunnudag, né miðvikudaga sem voru markaðsdagar víða. Þótti kjörið að nýta mánudaginn til ferðalaga svo menn gætu kosið á þriðjudegi.
Mikill tími, orka og fjármunir hafa verið settir í kosningabaráttuna og margir orðnir langþreyttir á auglýsingum og kynningarefni frá herbúðum forsetaframbjóðendanna. Það má án efa fullyrða að þessi stúlka muni taka gleði sína á ný þegar hún veit að baráttunni um Hvíta húsið er formlega lokið.