Pakistönsk kona, sem myrti táningsdóttur sína með því að skvetta sýru á hana, segir það hafa verið vilja guðs að stúlkan létist á þennan hátt. Konan misþyrmdi dóttur sinni á þennan hátt með fulltingi eiginmanns síns, eftir að stúlkan, Anusha Zafar, hafði verið staðin að því að gjóa augunum á unglingspilt.
Fólkið er búsett í Kasmír héraði og var handtekið þann 29. október, tveimur dögum eftir að þau misþyrmdu dóttur sinni, en þau létu hjá líða að leita læknis fyrir hana í tvo daga. Að lokum var hún flutt á sjúkrahús og reyndist hafa brennst af sýru á 70% líkamans. Hún lést tveimur dögum síðar.
Svokallaðir „heiðursglæpir“ eru algengir í Pakistan. Mannréttindasamtök segjast hafa vitneskju um að a.m.k. 900 konur og stúlkur hafi látið lífið á þennan hátt í landinu í fyrra eftir að hafa verið sakaðar um að hafa kastað rýrð á mannorð fjölskyldu sinnar með framferði sínu.
Faðir stúlkunnar sagði í samtali við breska ríkissjónvarpið BBC, sem hann veitti frá fangelsisklefa sínum, að foreldrarnir hefðu áður staðið Anushu að því að horfa á eftir strákum og að þá hefði hún iðrast sáran og heitið því að gera það ekki aftur. Hún hefði grátbeðið foreldra sína um fyrirgefningu.
„Hún sagði; ég gerði það ekki viljandi. Ég mun ekki gera þetta aftur,“ sagði móðirin í samtali við BBC. „En þá hafði ég þegar kastað sýrunni á hana. Það voru örlög hennar að láta lífið á þennan hátt.“