Barack Obama er 44. forseti Bandaríkjanna, nái Romney kjöri verður hann sá 45. í röðinni, frá því að George Washington fyrsti forsetinn sór embættiseið sinn á svölum húss á Wall Street í New York þann 30. apríl 1789.
Það var líka Washington sem lét byggja Hvíta húsið, embættisbústað forseta Bandaríkjanna. Bygging þess hófst árið 1792, en Washington entist ekki aldur til að flytja inn í það. Fyrstur forseta til að búa í Hvíta húsinu var John Adams, 2. forseti Bandaríkjanna.
Sá forseti sem styst var í embætti var William Henry Harrison, 9. forseti Bandaríkjanna en hann var forseti í einn mánuð. Hann tók við embætti 4. mars árið 1841, en fékk fljótlega kvef og ofan í það lungnabólgu og lést sléttum mánuði síðar 4. apríl og var fyrsti forsetinn sem lést á meðan hann gegndi embætti. James A. Garfield, 20. forseti Bandaríkjanna, sat heldur ekki lengi, eða í 200 daga árið 1881.
Abraham Lincoln var fyrsti forseti Bandaríkjanna sem lést fyrir hendi morðingja, en því miður ekki sá síðasti. Hann var myrtur af John Wilkes Booth, leikara og njósnara í leyniþjónustu Suðurríkjahers.
Upphaflega hafði Booth lagt á ráðin um að ræna Lincoln og ætlaði síðan að skipta á honum og stríðsföngum Norðurríkjahers. En eftir að hafa hlýtt á málflutning Lincolns um að veita skyldi blökkumönnum kosningarétt skipti Booth um skoðun og taldi réttara að ráða forsetann af dögum. Það gerði hann 14. apríl 1865.
Eftir lát Lincolns tók varaforseti hans við valdataumum. Sá hét Andrew Johnson. Þegar John F. Kennedy var ráðinn af dögum tæpum 100 árum síðar, árið 1963, tók líka varaforseti að nafni Johnson við embættinu.
Yngsti maðurinn til að taka við forsetaembættinu var reyndar Kennedy, sem var kjörinn árið 1960. Hann var þá 43 ára. Sá elsti var Ronald Reagan, sem var tæplega sjötugur er hann var kjörinn 20 árum síðar, árið 1980.
Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa tólf gegnt embættinu; sex repúblikanar og sex demókratar.
Nú eru á lífi fjórir fyrrverandi forsetar. Auk feðganna Bush eru það Jimmy Carter og Bill Clinton. Svo vill til að tveir þeirra eru fæddir árið 1924, Carter og Bush eldri og hinir tveir, þeir Clinton og Bush yngri eru fæddir árið 1946.
Á vefsíðu Hvíta hússins er mikill fróðleikur um forsetaembættið í Bandaríkjunum og þá sem hafa gegnt því.