„Fjögur ár í viðbót“

Barak Obama hefur verið endurkjörinn forseti Bandaríkjanna. „Þetta er ykkur að þakka. Fjögur ár í viðbót, þakka ykkur fyrir,“ sagði Obama í Tweeter-skeyti sem hann sendi stuðningsmönnum sínum af þessu tilefni. Þetta er í aðeins annað skiptið eftir seinna stríðið sem demókrati er endurkjörinn forseti Bandaríkjanna.  

Úrslitin þykja söguleg í ljósi erfiðs ástands efnahagsmála í Bandaríkjunum, lítils hagvaxtar og mikils atvinnuleysis.  Niðurstaðan lá fyrir þegar Obama var lýstur sigurvegari í kosningunum í Ohioríki sem var eitt 10 ríkja sem úrslit kosninganna voru talin geta ráðist í.

Þar með hafði Obama tryggt sér stuðning 275 kjörmanna en talið er að þeir geti orðið fleiri þegar heildarúrslit kosninganna liggja fyrir. Stuttu seinna lágu úrslit fyrir í Nevada og við það fjölgaði kjörmönnunum í 281. Til samanburðar hefur Mitt Romney tryggt sér stuðning 203 kjörmanna. Enn liggja ekki úrslit fyrir í Flórída og Virginíu.

Gríðarlegur fögnuður braust út á fundi stuðningsmanna Obama í Chicago en þar er búist við forsetanum á hverri stundu.  

Af heildarfjölda atkvæða sem greidd voru í kosningum hefur Romney hlotið ögn fleiri en Obama, eða 49,4% gegn 49,2%. Um er að ræða atkvæði sem talin höfðu verið á 61% kjörstaða, þar af eru aðeins 5% atkvæða í Kaliforníu.

Rúmlega 50 kjörmenn enn í boði

Enn er eftir að lýsa yfir úrslitum í Flórída, Virginíu, Colorado en þar eru 51 kjörmaður í húfi. Þar þykja úrslit það tvísýn að útilokað sé að segja fyrir um hjá hvorum frambjóðandanum þeir falla. Sömuleiðis liggja úrslit ekki fyrir í Alaska en búist er við að Romney hljóti þá þrjá kjörmenn sem þar eru í húfi.

Stuðningsmenn Obama á kosningavöku í Chicago slepptu sér af fögnuði …
Stuðningsmenn Obama á kosningavöku í Chicago slepptu sér af fögnuði þegar fyrir lá að forsetinn hafði verið endurkjörinn. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert