Kjósendur í Maine og Maryland samþykktu í atkvæðagreiðslu sem fram fór samhliða forsetakosningunum, að leyfa hjónabönd samkynhneigðra. Reiknað er með að samskonar tillaga verði samþykkt í Washington-fylki, en þar er talningu atkvæða ekki lokið.
Þetta er í fyrsta skipti sem kjósendur samþykkja tillögu um hjónabönd samkynhneigðra. Áður hefur tillaga um slíkt 31 sinni verið lögð fyrir kjósendur í hinum ýmsum ríkjum Bandaríkjanna en tillögurnar hafa allar verið felldar. Úrslitin benda til að viðhorfsbreyting sé að verða í Bandaríkjunum til þessa máls.
Fram að þessu hafa frambjóðendur til embættis forseta ýmist lýst andstöðu við hjónabönd samkynhneigðra eða komið sér hjá því að setja fram skýra stefnu í málinu, en Barack Obama forseti hefur lýst afdráttarlausum stuðningi við hjónabönd samkynhneigðra.
Í kosningunum í dag voru samtals 176 tillögur lagðar undir atkvæði kjósenda í nokkrum ríkjum í Bandaríkjum. Tillögurnar fjölluðu um ýmislegt, lögleiðingu marijúana, dauðarefsingar, fóstureyðingar, genabreytt matvæli, fjárhættuspil og fleira.
Kjósendur í Colorado samþykktu tillögu um að leyfa fullorðnu fólki að nota marijúana Samskonar tillaga var felld í Washington og Oregon. Kjósendur í Massachusetts samþykktu að heimila notkun á marijúana í læknisfræðilegum tilgangi. Kjósendur í Alabama og Motana felldu hins vegar slíka tillögu. Nú heimila 18 ríki Bandaríkjanna notkun á marijúana í læknisfræðilegum tilgangi.
Kjósendur í Flórída samþykktu tillögu sem bannar notkun á opinberu fé til fóstureyðinga. Kjósendur í Alabama, Montana og Wyaoming samþykktu lög sem þrengir valdsvið laga um heilbrigðismál, þ.e. svokallaðra Obamacare-laga.
Í Massachusetts var tillaga um að heimila læknum að aðstoða sjúklinga við að benda endi á líf sitt felld.
Í Kaliforníu var tillaga sem um að lögbundið yrði að skilgreina hvort matvara innihéldi genabreytt matvæli eða ekki felld með 54% atkvæða gegn 46%.
Tillaga um afnám dauðarefsingar var lögð fyrir kjósendur í Kaliforníu. Tillögunni var hafnað, en 53,6% sögðu nei en 46,4% já. Frá því dauðarefsingar voru teknar upp í Kaliforníu árið 1978 hafa 13 menn verið teknir þar af lífi. 729 bíða hins vegar þess að verða teknir af lífi og kostnaður ríkisins við þessa fanga er um 4 milljarðar dollara.
Ríkið greiðir um 99% af öllum lögfræðikostnaði fanga sem dæmdir hafa verið til dauða. Ríkið greiðir fyrir allar rannsóknir sem gera þarf í tengslum við þessi dómsmál. Kostnaður við fanga sem dæmdir hafa verið til dauða er þrisvar sinnum meiri en við aðra fanga.