Jared Lee Loughner, sem skaut á bandarísku þingkonuna Gabrielle Giffords í janúar 2011, með þeim afleiðingum að sex létust og henni var vart hugað líf, var í dag dæmdur í 140 ára fangelsi samkvæmt frétt AFP en það jafngildir sjö lífstíðardómum.
„Hann mun aldrei fá tækifæri til þess að beita byssu aftur,“ sagði dómarinn Larry Burns við uppkvaðningu dómsins í Tuscon í Arizona-ríki samkvæmt frétt AFP. Dómurinn er án möguleika á reynslulausn og hluti samkomulags við saksóknara í málinu gegn því að Loughner gengist við árásinni.
Giffords var viðstödd uppkvaðningu dómsins. Eiginmaður hennar, Mark Kelly, ávarpaði Loughner í dómssalnum og sagði að hver einasti dagur væri barátta fyrir hana við að gera hluti sem hún hafi áður átt auðvelt með.