Sjá eftir því að hafa drepið dóttur sína

Pakistanskt par sem skvetti sýru yfir dóttur sína fyrir að horfa á stráka, segist sjá eftir gjörðum sínum. Fjallað hefur verið um málið sem svokallað „heiðursmorð“ en mörg hundruð konur eru drepnar árlega fyrir eitthvað sem ættingjarnir telja ósiðlegt og getur svert fjölskylduna.

Foreldrarnir svettu sýru á 15 ára gamla dóttur sína á heimili þeirra í Kashmír-héraði í síðustu viku. Stúlkan lést eftir miklar þjáningar en hún hlaut brunasár á 70% líkama síns.

Talið er að á síðasta ári hafi 900 heiðursmorð verið framin í Pakistan. Oft er látið líta út fyrir að konurnar hafi tekið eigið líf.

Foreldrar Anushu voru bæði handtekin og ákærð fyrir morð í síðustu viku.

Zaheen Akhtar, móðir stúlkunnar, segist nú óttast um afdrif hinna barna sinna.

„Ég sé mjög eftir gjörðum mínum. Ég iðrast mjög, ég hefði ekki átt að gera þetta. Hún var mjög saklaus,“ segir móðirin í samtali við AFP-fréttastofuna.

Hún segir að fjögur börn sín séu nú ein á báti. Þau eru öll undir tíu ára aldri.

Akhtar segir þau foreldrarnir hafi óttast að Anusha myndi feta í fótspor eldri systur sinnar.

Þau giftu elstu dóttur sína er hún var sextán ára gömul þar sem fólk hafi „talað um slæma hegðun hennar.“

Anusha hafði framið þann glæp að horfa á tvo stráka á mótorhjóli.

Faðiri hennar, Zafar, segist hafa orðið brjálaður og barið dóttur sína áður en hann og eiginkonan skvettu á hana sýru. En nú sér hann eftir öllu.

„Móðir Anushu hefði ekki átt að gera þetta. Ég get ekki sofið, ég sé stöðugt brennt andlit hennar,“ segir Zafar.

 Foreldrarnir biðu í tvo daga áður en þau fóru með dóttur sína sárþjáða á sjúkrahús. Þau segja að það hafi verið vegna þess að þau höfðu ekki efni á heilbrigðisþjónustu.

Lögreglan segir að foreldrarnir hafi ekkert til síns máls. Dóttir þeirra hefði ekki framið neinn glæp. „Hún var alsaklaus.“

Á síðasta ári samþykkti pakistanska þingið ströng viðurlög við sýruárásum. Nú er hægt að dæma fólk í lífstíðarfangelsi fyrir slíkt og háa sekt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert