Breivik finnst illa farið með sig

Anders Behring Breivik.
Anders Behring Breivik. AFP

Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik segir að sér sé haldið við „ómannúðlegar“ aðstæður í fangelsi. Breivik hefur sent bréf til fangelsismálayfirvalda þar sem hann kvartar yfir því að sér sé gefið kalt kaffi, hann fái ekki nóg smjör á brauðið og sér sé ekki leyft að nota rakakrem.

Bréfinu, sem er 27 blaðsíður að lengd, var lekið til norska blaðsins VG. Stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um það en lögmaður Breiviks staðfestir að rétt sé haft eftir um innihald þess í blaðinu. 

Ekkert útsýni og lítill tími til að tannbursta sig

Breivik er haldið í nánast algjörri einangrun í Ila fangelsinu í útjaðri Ósló. Klefi hans er þrískiptur í svefnrými, lesrými og æfingaherbergi og er hver eining um sig 8 fermetrar. Í bréfinu kvartar Breivik yfir því að klefinn sé lítið skreyttur og að hann hafi ekkert útsýni. „Ég efast um að það fyrirfinnist verri íverustaður í Noregi,“ skrifar Breivik. 

Meðal annarra umkvartana fjöldamorðingjans er að handjárnin sem sett eru á hann þegar hann er fluttur milli álmna í fangelsinu séu of þröng og klefinn hans of kaldur svo hann þurfi að klæða sig í þrefalt lag af fötum.

Þá kvartar Breivik yfir því að hann þurfi að flýta sér á morgnana við að raka sig og bursta í sér tennurnar. Honum finnst óásættanlegt að ljós- og sjónvarpsrofar séu staðsettir fyrir utan klefann svo hann þurfi að biðja um aðstoð við að skipta um stöð og slökkva ljósið.

Hluti af klefa Anders Behring Breivik í Ila fangelsi.
Hluti af klefa Anders Behring Breivik í Ila fangelsi. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert