Francois Hollande Frakklandsforseti þykir hafa gert sig sekan um slæma villu er hann undirritaði bréf með hamingjuóskum til Baracks Obama vegna endurkjörs hans sem forseta Bandaríkjanna.
Bréfið birti hann á fésbókarsíðu Elysee-hallar og hefur það orðið mörgum til gamans en öðrum til armæðu. „Friendly Francois Hollande“ eða vinsamlegi Francois Hollande skrifaði franski forsetinn í hinu opna bréfi.
Gantast hefur verið með þetta á netsíðum og í bloggheimum um allar jarðir. Talið er að forsetinn hafi verið með hina hefðbundu frönsku kveðju „amicalement“ í huga en ekki tekist betur til er hann vildi gera bréf sitt persónulegra með því að skrifa á það eigin hendi.
„Gat enginn hinna 200 ráðgjafa hans sagt honum að orðið „friendly“ er markleysa, þýðir ekki neitt, sem undirritun í bréfslok?“ spyr einn af mörgum sem athugasemdir settu inn á fésbókarsíðu forsetahallarinnar í París.
Annar kom með þá hjálplegu ábendingu til starfsliðs hallarinnar, að í viðaukum orðabóka væri oftast að finna ábendingar um heppilegar kveðjur til að ljúka bréfum með.
„Kann enginn í Elyseehöll ensku og getur komið í veg fyrir að forsetinn geri sig að kjána?“ spyr enn einn. Sá fjórði sagði undirritunina koma ágætlega heim og saman við ímynd Hollande: „Hann kveðst vera venjulegur Frakki, ekki satt? . . . sem misþyrmir enskunni sinni . . . eðlilegt.“