Vilja að Malala fái Nóbelsverðlaun

Malala Yousafzai liggur á sjúkrahúsi í Birmingham. Á myndinni eru …
Malala Yousafzai liggur á sjúkrahúsi í Birmingham. Á myndinni eru hún með föður sínum og bræðrum. AFP

Yfir 60 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun um að pakistönsku stúlkunni Malala Yousafzai verði veitt friðarverðlaun Nóbels. Á morgun er mánuður liðinn frá því að liðsmaður talibana skaut á stúlkuna, en hún er aðeins 15 ára gömul.

Malala var skotin í höfuðið í skólabíl í október vegna þess að hún hafði opinberlega gagnrýnt talibana og hvatt til þess að stúlkum væri tryggð menntun.

Malala dvelur núna á sjúkrahúsi í Birmingham í Bretlandi. Hún hefur náð miklum framförum og getur gengið um og tjáð sig. Hún þarf hins vegar á næstunni að fara í stóra skurðaðgerð til að lagfæra sár á höfði eftir byssukúluna. Byggja þarf upp höfuðkúpubeinið. Læknar vilja ekki gera aðgerðina fyrr en hún hefur náð meiri bata.

Malala hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún þakkar fyrir þann stuðning sem hún hefur fengið. Malala hefur fengið mörg þúsund skeyti alls staðar úr heiminum frá fólki sem óskar henni góðs bata.

Zianuddin Yousafzai, faðir hennar, segir að Malala hafi beðið sig að koma því á framfæri að hún sé orðlaus yfir öllum þeim kveðjum sem hún hafi fengið frá konum, körlum og börnum um allan heim. Þetta hafi glatt hana mikið.

Meira en 60 þúsund manns hafa skorað á friðarverðlaunanefnd Nóbels að veita henni friðarverðlaun. Shahida Choudhary, sem búsett er í Bretlandi, átti frumkvæðið að undirskriftasöfnuninni.

„Malala er fulltrúi kvenna sem talar fyrir hönd stúlkna sem er neitað um menntun einungis vegna kynferðis. Það eru til stúkur sem eru í sömu stöðu og Malala í Bretlandi og um heim allan. Ég var ein þeirra,“ segir Choudhary.

Choudhary segir að ef Malala fái friðarverðlaun Nóbels muni það senda skýr skilaboð um að heimurinn sé að fylgjast með og vilji styðja stúlkur sem krefjast menntunar.

Boðað hefur verið til funda víða um heim á morgun til stuðnings kröfum um menntun stúlkna, en þá er mánuður liðinn frá því að Malala var skotin í höfuðið í skólabílnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert