Fituskattur aflagður og hætt við sykurskatt

Kaupmannahöfn.
Kaupmannahöfn. mbl.is/GSH

Danir hafa ákveðið að leggja af svonefndan fituskatt sem komið var á fyrir rétt rúmu ári. Jafnframt hefur verið hætt við að leggja á nýjan sykurskatt. Talið er að með skattinum hafi ekki tekist að stýra neyslu Dana á þann veg sem ætlast var til.

Dönsk stjórnvöld sendu frá sér tilkynningu vegna málsins í dag þar sem segir að skatturinn hafi leitt til þess að Danir ferðuðust til nágrannalanda eftir matvörum og hefði aðeins að litlu leyti ef einhverju breytt neyslumunstri þjóðarinnar.

Til stóð að leggja á frekari skatt, sykurskatt, en einnig hefur verið hætt við þær fyrirætlanir.

Danmörk var fyrsta landið í heiminum til að stíga þetta skref en markmið skattsins var m.a. að draga úr offitu meðal þjóðarinnar.

Skatturinn var harðlega gagnrýndur á sínum tíma þar sem hann leiddi til verðhækkana og hækkunar á kostnaði fyrir fyrirtæki sem gæti leitt til fækkunar starfa. Hann var lagður á feit matvæli eins og ost, smjör, sælgæti, pítsur og fleira.

Nokkrar matvöruverslanir gáfu það út í dag að vöruverð myndi lækka um leið og skatturinn yrði afnuminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert