Breska ríkisútvarpið (BBC) á í vök að verjast í kjölfar hneykslismála sem hafa komið upp í tengslum við sjónvarpsmanninn Jimmy Savile, sem er sakaður um fjölmörg kynferðisbrot, og nýlegrar umfjöllunar Newsnight þar sem hátt settur stjórnmálamaður var ranglega sakaður um kynferðisbrot gegn börnum.
Fyrr í dag var greint frá því að Helen Boaden, fréttastjóri BBC, og Steve Mitchell, aðstoðarfréttastjóri breska útvarpsins, hefðu verið beðin um að stíga til hliðar á meðan beðið væri niðurstöðu innri rannsóknar sem rannsakar hvernig tekið var á málum Saviles innan veggja BBC.
Umfjöllun Newsnight olli miklu fjaðrafoki og niðurstaða annarrar rannsóknar í tengslum við umfjöllunina er sú að nauðsynlegt sé að skýra hver sé fyrirmælakeðjan innan stofnunarinnar, sem sýnir boðvald og rétt yfirmanns til að gefa starfsmanni fyrirmæli. BBC greinir sjálft frá þessu.
Hneykslið sem skekur BBC tengist annars vegar sjónvarpsmanninum þekkta, Jimmy Savile, en stofnunin hefur legið undir ámæli fyrir að hætta við sýningu á þætti um kynferðisbrot hans gegn börnum. Savile lést í fyrra en hann var meðal annars kynnir sjónvarpsþáttanna Jim'll Fix It og Top of the Pops sem voru sýndir um árabil á BBC og nutu mikilla vinsælda.
Hins vegar er um að ræða ásökun sem fram kom í fréttaskýringarþættinum Newsnight 2. nóvember sl. þess efnis að hátt settur stjórnmálamaður hefði vanið komur sínar á barnaheimili í Wales á níunda áratugnum og brotið gegn börnum. Í kjölfarið var lávarðurinn Alistair McAlpine nafngreindur í þætti Newsnight. McAlpine hefur neitað sök og engar sannanir liggja fyrir um sannleiksgildi ásakananna.
Vegna mikillar óánægju og fjölda kvartana sáu forsvarsmenn BBC sig knúna til að biðjast afsökunar fyrir hönd þáttastjórnenda Newnight fyrir að hafa bendlað McAlpine ranglega við málið.
Í fyrrakvöld tilkynnti George Entwistle, útvarpsstjóri breska ríkisútvarpsins, afsögn sína í kjölfar umfjöllunar Newsnight um McAlpine lávarð. Það hefur hins vegar vakið athygli að hann mun hljóta 450.000 pund við starfslokin, en það jafngildir um 92 milljónum kr. Breska forsætisráðuneytið hefur látið hafa það eftir sér að það sé erfitt að réttlæta slíka upphæð til handa Entwistle.
Heimildarmenn BBC segja að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, telji að Entwistle verði að eiga það við sína samvisku hvort hann taki við þessari summu. Um er að ræða árslaun en Entwistle hefur aðeins verið útvarpsstjóri BBC í tvo mánuði.
Breski Verkamannaflokkurinn hefur óskað eftir því að neðri deild þingsins fjalli um launamál útvarpsstjórans fyrrverandi.
BBC segir að hvorki Boaden né Mitchell hafi komið nálægt umfjöllun Newsnight um McAlpine.
Þau voru hins vegar yfirmenn og hluti af fyrirmælakeðjunni þegar Newsnight hætti við að birta umfjöllunina um Savile, að því er BBC segir sjálft í umfjöllun á vef breska útvarpsins.
Þau komu hins vegar ekki að ákvörðunartökum um ákveðin fréttamál BBC News á meðan önnur rannsókn stendur yfir, sem Nick Pollard stýrir, í tengslum við Savile-málið. Pollard er fyrrverandi yfirmaður Sky News.
Ken MacQuarrie, yfirmaður BBC í Skotlandi, hefur tekið saman skýrslu um Newsnight-málið. Þar segir hann að ákveðið hafi verið að setja saman eina stjórn sem hafi yfirumsjón með allri fréttaumfjöllun stofnunarinnar. Þetta sé gert á meðan það sé óljóst hvar ritstjórnarleg ábyrgð liggi.
Þá segir hann að verið sé að skoða hverjir þurfi að skýra mál sitt og hvort grípa þurfi til viðeigandi ráðstafana gagnvart þeim.
Breska ríkisútvarpið segir að þegar skýrsla Pollards liggi fyrir þá muni þau Boaden og Mitchell snúa aftur til starfa.
Á vef BBC er tekið fram, að fréttastjórinn beri bæði stjórnunarlega og ritstjórnarlega ábyrgð á fréttum sem birtist í Bretlandi og á heimsvísu. Einnig umfjöllunum sem séu birtar í sjónvarpi, útvarpi og á netinu.
Fran Unsworth, sem er yfirmaður fréttaöflunar, og Ceri Thomas, ritstjóri Today-þáttarins sem er á Radio 4 á BBC, hafa verið beðin um að taka við störfum Boadens og Mitchells tímabundið.
Tim Davie, sem er starfandi útvarpsstjóri BBC, sendi starfsmönnum stofnunarinnar tölvupóst í dag þar sem fram kemur að ekki verði horfið frá þeirri vinnu sem Entwistle hóf við að hreinsa til innan BBC. En hann vildi „losna við allt sem stendur í vegi fyrir því að hægt verði að bjóða áhorfendum upp á það besta sem bresk sköpunargáfa hefur fram að færa,“ segir í póstinum til starfsmannanna.
Robert Peston, ritstjóri viðskiptafrétta á BBC, segist hafa fengið þær upplýsingar frá lögmönnum Boadens og Michells að þau hafi upplýst Davie um að þau séu fullfær um að stýra BBC News, þrátt fyrir þá óvissu sem ríki í tengslum við Pollard-rannsóknina.
Hvað varðar laun Entwistles, þá hefur Harriet Harman, varaformaður Verkamannaflokksins, kallað eftir því að málið verði tekið fyrir á fundi í neðri deild þingsins. Hún segir að svo virðist sem verið sé að verðlauna Entwistle fyrir mistök.
Þá hefur hún hvatt Entwistle til að þiggja ekki meira en hálfs mánaðar laun, sem hann á rétt á.
Breska ríkisútvarpið segir að upphæðin tengist því að Entwistle muni enn aðstoða BBC. Í fyrsta lagi muni hann veita aðstoð í tengslum við rekstur stofnunarinnar en fyrst og fremst mun hann veita aðstoð í tengslum rannsóknirnar tvær sem standa nú yfir.