Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hóf rannsókn á ævisöguritara Davids Petraeus, fyrrverandi forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar (CIA), eftir að vinkonu Petraeus fór að berast hótunarpóstur frá ævisöguritaranum, Paulu Broadwell.
Líkt og fram hefur komið sagði Petraeus óvænt af sér sem forstjóri CIA á föstudag vegna framhjáhalds. Hjákonan er Broadwell en samband þeirra kom í ljós eftir að FBI hóf rannsókn á henni eftir að vinkona Petraeus, Jill Kelley, varð fyrir áreiti af hálfu Broadwell, samkvæmt frétt BBC.
Á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að stjórnmálamenn krefjist nú svara um hvers vegna þeir hafi ekki verið upplýstir um framhjáhaldið fyrr en eftir að í ljós kom að nokkrir mánuðir eru liðnir síðan rannsókn FBI hófst og samband hans og Broadwell kom í ljós.
Petraeus, sem er sextugur að aldri, lýsti hegðun sinni sem óviðunandi þegar hann tilkynnti afsögn sína á föstudag. Hann og eiginkona hans, Holly, hafa verið gift í 37 ár.
Paula Broadwell útskrifaðist líkt og Petraeus frá West Point-herskólanum.
Í gær birtu bandarísk yfirvöld nafn Jill Kelley en hún býr í Flórída. Kelley, sem er 37 ára að aldri, er fjölskylduvinur Petraeus og eiginkonu hans, Holly. Ekki er talið að hún hafi átt í ástarsambandi við Petraeus. Kelley og eiginmaður hennar sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þau sögðust vera vinir fjölskyldu Petraeus og óskuðu eftir friði fjölmiðla.
Petraeus var skipaður yfirmaður CIA í september á síðasta ári en hann hafði áður stýrt herdeildum Atlantshafsbandalagsins í Bosníu-Hersegóvínu og í Írak. Patreus varð síðar yfirmaður bandaríska heraflans í Afganistan.