Rex Hunt látinn

Rex Hunt, fyrrverandi landsstjóri Falklandseyja.
Rex Hunt, fyrrverandi landsstjóri Falklandseyja.

Rex Hunt, sem var nýlendustjóri Breta yfir Falklandseyjum árið 1982 er Argentínumenn réðust þar inn, er látinn, 86 ára að aldri. Hunt er m.a. þekktur fyrir að hafa verið í fullum landstjóraskrúða er hann var handtekinn.

Hunt skipulagði varnir á Falklandseyjum í kjölfar innrásarinnar en hann hafði aðeins yfir mjög litlu herafli að ráða.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði í yfirlýsingu í dag að Hunt hefði verið hetja í augum allra Breta. Hann sagði Hunt hafa sýnt mikið hugrekki er hann stóð frammi fyrir innrásarliðinu í Port Stanley í apríl árið 1982.

Hunt var skipaður nýlendustjóri á eyjunum árið 1980. Bretar voru þá að draga úr yfirráðum sínum á svæðinu en Argentínumenn höfðu lengi gert tilkall til eyjanna.

Er argentínski herinn gerði innrás sína 2. apríl varðist Hunt ásamt 68 sjóliðum við hús nýlendustjórans í fleiri klukkustundir.

Hann ákvað að lokum að gefast upp til að koma í veg fyrir frekara mannfall. En áður en hann gaf sig fram við innrásarherinn klæddi hann sig upp í fullan skrúða landstjórans, m.a. bar hann sverð. Hann neitaði svo að taka í hönd argentínska herstjórans.

Bretar voru ekki fúsir til að láta Falklandseyjar af hendi og sendu her sinn til eyjanna. Eftir stutta orrustu náðu þeir aftur yfirráðum. 649 Argentínumenn og 255 Bretar féllu í stríðinu. 

Rex Hunt sneri til baka í stöðu nýlendustjóra og gegndi því embætti til ársins 1985.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert