„Skugga-stríðsmaðurinn“ sýknaður

Japanski stjórnmálamaðurinn Ichiro Ozawa.
Japanski stjórnmálamaðurinn Ichiro Ozawa. AFP

Einn valdamesti maður Japans, Ichiro Ozawa, var í morgun sýknaður í hæstarétti í Tókýó af ásökunum um að hafa ekki gefið upp framlög í kosningasjóð sinn. Hann er einn litríkasti stjórnmálamaður Japans og hlaut viðurnefnið „Skugga-stríðsmaðurinn“ vegna orðróms um baktjaldamakk sem sagt er hafa markað meginhluta stjórnmálastefnu Japans.

Dómurinn í morgun staðfesti fyrri dóm um að Ozawa hefði ekki brotið lög þegar honum láðist að gefa upp 400 milljóna jena lán í kosningasjóð sinn, en féð var ætlað til kaupa á landi. Fallist var á rök Ozawa um að um „tæknileg mistök“ væri að ræða og að aldrei hefði verið ætlunin að brjóta lög.

Hann hefur verið einn af lykilmönnunum í tveimur stærstu stjórnmálaflokkum landsins og stofnaði síðan flokk fyrr á þessu ári. Sá flokkur hefur þó ekki notið þeirrar velgengni sem Ozawa bjóst við og var ekki eins mikil ógn við forsætisráðherrann Yoshihiko Noda, eins og til hafði staðið.

Japanskir fjölmiðlar hafa lengi verið afar gagnrýnir á bein og óbein áhrif Ozawa. Ásakanir um ýmislegt misferli af hans hálfu hafa verið á sveimi í áratugi, en hann hefur aldrei verið dæmdur fyrir neitt misjafnt.

Japanski stjórnmálamaðurinn Ichiro Ozawa í réttarsal í hæstarétti Tókýóborgar í …
Japanski stjórnmálamaðurinn Ichiro Ozawa í réttarsal í hæstarétti Tókýóborgar í morgun. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert