Óánægjubylgja hefur riðið yfir Danmörku eftir að meirihluti hverfisráðs í Kokkedal samþykkti að sleppa jólaskreytingum og -skemmtunum í ár. Stutt er hins vegar síðan haldin voru kostnaðarsöm hátíðarhöld í hverfinu vegna trúarhátíðar múslíma.
Fimm fulltrúar af níu í hverfisráðinu samþykktu að hefðbundin jólagleði skyldi undanskilin þetta árið. Meirihluti fulltrúa í ráðinu eru múslímar. Málið hefur fengið töluverða umfjöllun í dönskum fjölmiðlum og vakið mikið mikla reiði meðal Dana.
Meðal annars hefur þessi reiði komið fram í ummælakerfum dagblaða. „Þetta er enn eitt dæmið um tilraunir innflytjenda til að sneiða af hefðir okkar og venjur og endar ábyggilega með því að ekkert verður eftir,“ sagði Mogens Justesen í ummælakerfi Jyllands-Posten.
Þá er á það bent að kostnaðurinn við Eid-hátíðina, sem er trúarhátíð múslima, hafi numið 60 þúsund dönskum krónum, jafnvirði 1,3 milljóna íslenskra króna, en kostnaður við jólaskreytingar og -skemmtunina var áætlaður sjö þúsund danskar krónur, eða rúmar 150 þúsund krónur.
Annar lesandi Jyllands-Posten, Kristoffer Damgaard, sagði að múslímarnir í hverfisráðinu skilji greinilega ekki að lýðræði gangi ekki út á að afnema réttindi minnihlutans.
Einhverjir hafa gengið svo langt að mælast til þess að sett verði lög til að vernda jólahátíðina fyrir áhrifum innflytjenda.