Sautján lögreglumenn særðust í átökum sem brutust út víða á Ítalíu í dag þegar tugþúsundir komu saman til að mótmæla aðhaldsaðgerðum stjórnvalda.
Alvarlegustu átökin brutust út í borginni Tórínó. Þar sáust um 20 manns berja einn lögreglumann með kylfum. Í Mílanó hlutu 12 lögreglumenn áverka í kjölfar götubardaga í miðborginni.
Alls særðust þrír lögreglumenn í Tórínó og tveir í Padúa að sögn talsmanna lögreglunnar.
Tugir ungmenna köstuðu grjóti og flöskum í Rómarborg í dag ásamt því að eyðileggja bifreiðar þegar mótmælendur reyndu að komast fram hjá lögreglu og inn í miðborgina. Lögreglan beitti táragasi og brynvörðum bifreiðum gegn þeim.
„Í dag er Evrópa að vakna - frá Róm til Madrídar til Aþenu,“ sagði Mario Nobile, sem er 23 ára gamall háskólanemi.
Stærsta verkalýðsfélag Ítalíu, CGIL, stóð fyrir mótmælum og verkföllum í fjölmörgum borgum landsins.
Það var ekki aðeins á Ítalíu sem menn lögðu niður störf og tóku sér mótmælaspjöld í hönd, því svipað var uppi á teningnum víða í suðurhluta Evrópu.
Að sögn embættismanna söfnuðust tugþúsndir háskólanema og verkamanna á götum Rómar, Mílanó, Tórínó og í um 100 öðrum borgum og bæjum. Fólkið krafðist þess að staðið yrði vörð um störf þeirra og lífeyri á meðan það hrópaði slagorð gegn Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu.
Í Tórínó tókst aðgerðarsinnum að ná skrifstofum héraðsyfirvalda á sitt vald tímabundið. Þá drógu þeir fána mótmælahreyfingarinnar að húni þar sem verið er að leggja brautarteina fyrir nýja háhraðalest.