Óeirðarlögreglan stóð í ströngu á Spáni og Ítalíu í dag er þúsundir óánægðra borgara streymdu út á götur til að mótmæla niðurskurði hins opinbera. Fjöldamótmæli og verkföll fóru fram víða í Evrópu. Í dag lömuðust samgöngur víða í álfunni vegna verkfalla og mótmæla.
Mikill mannfjöldi kom saman í Madrid og mótmælti niðurskurðaráformum. Mótmælendur hrópuðu, flautuðu, púuðu og steyttu hnefana. Fánar verkalýðshreyfingarinnar sáust víða og á spjöld var skrifað: Þið eruð að taka af okkur framtíðina.
Lögregluþyrlur sveimuðu yfir hópnum. Óeirðarlögreglan lét til sín taka. Margir hópuðust að þinghúsinu.