Konan sem hershöfðinginn daðraði við

Frá vinstri Natalie Khawam tvíburasystir Kelley, David Petraeus, Scott Kelley …
Frá vinstri Natalie Khawam tvíburasystir Kelley, David Petraeus, Scott Kelley eiginmaður Kelley, Jill Kelley og Holly eiginkona Davids Petraeus.

37 ára gömul kona frá Tampa í Flórída er orðin miðdepill í máli sem snýst um framhjáhald og óviðeigandi tölvupósta, en málið hefur kostað einn hershöfðingja starfið og annar stendur höllum fæti.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa sýnt Jill Kelley mikinn áhuga, en ónafngreindir tölvupóstar sem hún fékk leiddu til þess að upp komst um ástarsamband milli David Petraeus og ævisöguritara hans, Paula Broadwell. Broadwell sendi Kelley póstana vegna þess að hún taldi að Kelley væri að daðra við Petraeus.

Eftir að rannsókn á málinu hófst kom í ljós að John Allen, yfirmaður Bandaríkjahers í Afganistan, hafði sent fjölda tölvupósta til Jill Kelley. Tölvupóstarnir eru um 3000 og innihalda 20-30 þúsund blaðsíður af texta. Þetta varð til þess að varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna ákvað að fresta því að taka ákvörðun um að skipa Allen yfirhershöfðingja herafla Atlantshafsbandalagsins.

Dugleg að halda partý

Ekkert bendir til þess að Kelley hafi átt í ástarsambandi við Petraeus eða Allen. En hver er þessi kona sem hefur átt þátt í að fella einn hershöfðingja og annar þarf að óttast um starfið sitt?

Kelley er af líbönskum uppruna. Hún er 37 ára gömul og býr í Tampa í Flórída ásamt eiginmanni sínum og þremur dætrum. Eiginmaður hennar er krabbameinslæknir. Hún á bróður og tvíburasystur sem heitir Natalie Khawam.

Allen og Petraeus eru góðir vinir beggja systranna. Breska blaðið Telegraph segir að Kelley hafi verið dugleg að halda partý sem háttsettir menn sem starfa við herstöð Bandaríkjahers í Tampa sóttu. Petraeus var t.d. í partýi hjá Kelley fyrir tveimur árum þar sem 28 lögreglumenn á mótorhjólum fylgdu honum. Samkvæmið var haldið á heimili Kelley, en fullyrt er að það sé yfir 150 milljóna króna virði.

Hershöfðingjarnir blönduðu sér í forræðisdeilu systurinnar

Natalie Khawam hefur átt í forræðisdeilu við barnsföður sinn og Allen og Petraeus hafa báðir skrifað bréf henni til stuðnings í deilunni.

Khawam var lýst gjaldþrota fyrr á þessu ári, en gjaldþrotið er upp á yfir 460 milljónir króna. Jill Kelley og Scott Kelley, eiginmaður hennar, virðast einnig eiga í fjárhagserfiðleikum en þau eiga í málarekstri við tvo banka vegna lána upp á samtals 480 milljónir króna sem ekki eru í skilum.

Broadwell varaði Allen við Kelley

Rannsókn á tölvupósti Allens hefur leitt í ljós að Paula Broadwell varaði hann við Kelley sem hún sagði að væri tálkvendi. Tölvupósturinn er nafnlaus, en rannsókn hefur leitt í ljós að hann er frá Broadwell. Broadwell sendi sambærileg skilaboð til fleiri yfirmanna í hernum. Þetta kemur fram í frétt á bandarísku fréttastofunni CBS.

Kelley sjálf hefur lítið látið hafa eftir sér eftir að þetta mál kom upp. Hún sendi frá sér yfirlýsingu í upphafi þar sem hún segir að hún og eiginmaður hennar hafi verið vinir Petraeus í meira en fimm ár. Hún óskaði jafnframt eftir að fjölmiðlar virtu friðhelgi einkalífs hennar.

Áhugi bandarískra fjölmiðla á henni er hins vegar mikill og allt grafið upp. Í frétt usatoday.com kemur fram að Kelley hafi á síðustu dögum hringt nokkrum sinnum í lögreglu og óskað eftir vernd vegna fjölmiðlamanna sem sitji um heimili hennar.

Jill Kelley
Jill Kelley Tim Boyles
Jill Kelley yfirgefur heimili sitt í Tampa í Flórída.
Jill Kelley yfirgefur heimili sitt í Tampa í Flórída. Tim Boyles
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert