Vill afnema neitunarvald innan ESB

Viviane Reding, yfirmaður dómsmála í framkvæmdastjórn ESB, ásamt José Manuel …
Viviane Reding, yfirmaður dómsmála í framkvæmdastjórn ESB, ásamt José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnarinnar. AFP

Ríki Evrópusambandsins ættu að taka allar ákvarðanir með atkvæðagreiðslum þar sem meirihlutinn ræður niðurstöðunni, þar með talið í viðkvæmum málaflokkum líkt og skattamálum, í stað þess að hafa neitunarvald og geta þannig stöðvað tilraunir til þess að samræma reglur innan sambandsins.

Þetta kom fram í máli Viviane Reding, yfirmanns dómsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, á fundi í Berlín um síðustu helgi samkvæmt fréttavefnum Euobserver.com.

„Neitunarvaldið í ráðherraráðinu verður að heyra sögunni til. Atkvæðagreiðsla byggð á auknum meirihluta ætti að ná til fleiri málaflokka, eins og til að mynda skattamála,“ sagði Reding á fundinum en neitunarvald ríkja sambandsins, eða einróma samþykki, nær í dag til tiltölulega fárra málaflokka og hefur þeim málaflokkum fækkað mjög á undanförnum árum.

Hún viðurkenndi hins vegar fyrir blaðamönnum eftir fundinn að þessi hugmynd sín, sem myndi kalla á breytingar á sáttmálum Evrópusambandsins, væri mjög umdeild hjá ríkjum eins og Bretlandi og Írlandi og sömuleiðis heimalandi hennar Lúxemborg.

„En neitunarvaldið snýst um grundvallaratriði. Ég tel að stór fjölskylda geti aðeins haldið áfram að vera til ef hún stendur saman og leitar sameiginlegra ákvarðana. Ef 26 vilja eitthvað og eitt stöðvar það þá er það ekki eðlilegt,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert