Forsætisráðherra Egyptalands, Hisham Qandil, fordæmdir árásir Ísraelshers á Gaza og segir þær skelfilegar. Þrátt fyrir að hafa heitið vopnahléi héldu Ísraelsmenn árásum sínum áfram á Gaza á meðan ráherrann var þar í heimsókn. Gríðarleg reiði er meðal Palestínumanna sem hvetja Hamas til að gera árásir á Tel Aviv.
Að minnsta kosti 20 Palestínumenn, þar af fimm börn, og þrír Ísraelar hafa látist í árásum á báða bóga frá því Ísraelsher hóf loftárásir á Gaza á miðvikudag.
Ísraelsher hefur sent 16 þúsund mönnum í varaliði hersins herkvaðningu en stjórnvöld heimiluðu í gær að alls yrðu 30 þúsund varahermenn kallaðir út. Fréttamaður breska ríkisútvarpsins segir að enn séu engin merki um að landhernaður sé hafinn á Gaza.
Qandil heimsótti stjórnarráðsbygginguna í Gazaborg og eins sjúkrahús þar sem særðir liggja.
„Það sem ég er að verða vitni að er hörmungar og ég get ekki setið á mér og þagað. Árásir Ísraela verða að hætta,“ segir Qandil.
Hann segir að Egyptar muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma á vopnahléi milli Palestínu og Ísraels.
Hamas hefur skotið á Ísrael í dag, meðal annars nágrenni Tel Aviv en borgin er í um 60 km fjarlægð frá Gazaströndinni.