Angela Merkel, kanslari Þýskalands, átti í orðaskiptum við Vladimir Pútín, forseta Rússlands, í morgun vegna fangelsunar meðlima pönkhljómsveitarinnar Pussy Riot. Þjóðverjar eru á meðal þeirra fjölmörgu þjóða sem hafa gagnrýnt þá meðferð sem konurnar í hljómsveitinni fengu af hendi rússneskra yfirvalda.
Merkel er stödd í Moskvu ásamt sendinefnd á ráðstefnu um samskipti landanna tveggja.
Merkel sagðist efast um að konurnar, þær Nadezhda Tolokonnikova og Maria Alyokhina, hefðu verið dæmdar til tveggja ára vistar í vinnubúðum ef þær hefðu búið í Þýskalandi. „Samskipti þjóðanna tveggja verða ekki góð ef við sópum alltaf öllu undir teppið,“ sagði kanslarinn.
„Við vitum hvað ykkur finnst, en þið fáið upplýsingarnar langt að,“ sagði Pútín við Merkel og var hann að sögn sjónarvotta ævareiður.
„Konurnar eru í fangelsi fyrir að hafa verið með gjörning í kirkju. En er kanslaranum kunnugt um að áður en það gerðist hengdi ein þeirra upp mynd af gyðingi og sagði að Moskva þyrfti að losa sig við slíkt fólk?“
„Hvorugt okkar getur stutt fólk sem lýsir yfir and-gyðinglegum viðhorfum,“ sagði Pútín við Merkel.
Merkel svaraði því til að hún vonaðist til þess að ekki væri litið á gagnrýni sem tilraun til niðurrifs. „Við óskum Rússlandi velgengni,“ sagði hún.