Hætta tímabundið að skjóta á Gaza

Ísraelar hafa samþykkt að hætta loftárásum á Gaza í dag á meðan forsætisráðherra Egyptalands, Hisham Qandil, kemur þangað í heimsókn. Á sama tíma eru liðsmenn Hamas beðnir um að hætta árásum á Ísrael á meðan ráðherrann er í heimsókn.

AFP fréttastofan hefur eftir heimildum innan hersins að forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, hafi fallist á beiðni egypskra stjórnvalda að hætta árásum á meðan Qandil er á Gaza en búist er við að hann verði þar í um þrjár klukkustundir. Ísraelar setja hins vegar það skilyrði fyrir vopnahléinu að Hamas hætti árásum á sama tíma. 

Talsmaður innanríkisráðuneytis Gaza, Islam Shahwan, segir að Ísraelar hafi gert um 130 árásir undanfarinn sólarhring en talið er að 19 Palestínumenn hafi látist í árásunum, þar af nokkur börn, og 235 særst.

Frá því á miðvikudag hefur her Ísraels gert 466 loftárásir á Gaza en þann dag skutu Ísraelar einn af leiðtogum hernaðararms Hamas, Ahmed Jaabari.

Palestínumenn hafa aftur á móti skotið 11 flugskeytum yfir til Ísraels frá Gaza í nótt. Alls hafi 280 flugskeytum verið skotið frá Gaza yfir til Ísraels frá því á miðvikudag. Þar af hafi tvær lent skammt frá Tel Aviv. Þrír Ísraelar hafa týnt lífi í árásunum.

Óttast er að blóðsúthellingarnar leiði til nýs stríðs milli Ísraela og Hamas eins og fyrir fjórum árum þegar að minnsta kosti 1.200 manns biðu bana.  Netanyahu,  sagði að til greina kæmi að hefja landhernað á Gaza-svæðinu ef Hamas héldi áfram flugskeytaárásunum. Hann sakaði Hamas um að hafa framið stríðsglæpi gagnvart Ísraelum og Palestínumönnum með því að skjóta flugskeytum á óbreytta borgara í Ísrael og fela sig meðal óbreyttra borgara á Gaza-svæðinu. Ísraelar segja að Hamas-mennirnir hafi komið flugskeytunum fyrir í íbúðahverfum af ásettu ráði.

Í morgun sendu stjórnvöld í Ísrael út herkvaðningu til um 16 þúsund manna í varaliði hersins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert